154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur ekki verið mikið um það að fundir hafi fallið niður í þeim nefndum sem ég hef setið í þó svo að það hafi vissulega gerst. Mig langar bara að benda á það að síðasta föstudag féllu niður fundir í ansi mörgum nefndum einmitt til þess að þingmenn gætu sótt barnaþing, þannig að það eru ýmsar ástæður fyrir því sem er gert. Það var m.a. vegna þess að forseti hvatti okkur til að taka þátt í því þingi.

Annars kvaddi ég mér fyrst og fremst hljóðs til að mótmæla því að ríkisstjórnin sé ekki að gera neitt til að koma til móts við áhyggjur almennings af stöðunni. Hefur fólk ekki verið að fylgjast með því hvað er verið að gera í vinnu varðandi til að mynda fjárlög eða tekjuöflun ríkisins í tekjubandormi? Hefur enginn verið að fylgjast með því hvað er verið að gera varðandi stöðu fólks í Grindavík? (ÞorbG: Einmitt þess vegna sem ég segi þetta.) Vegna þess að það er verið að vinna í þessum málum er aðeins að dragast að við getum tekið fjárlög til 2. umræðu og það er vegna þess að hér er verið að vanda sig, af því að ætlunin er (Forseti hringir.) að létta á áhyggjum almennings og koma með tillögur (Forseti hringir.) sem halda fram í tímann. Þá þarf að vanda sig, ekki bara kalla eftir því að hlutirnir gerist hratt (Forseti hringir.) og hraðar en hægt er að vinna þá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)