154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

aðgerðir í húsnæðismálum og stuðningur við barnafjölskyldur.

[11:10]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það efast enginn um vilja ríkisstjórnarinnar til að styðja við Grindvíkinga og það er pólitísk samstaða um það. Það breytir því ekki að hér fer að fara af stað 2. umræða fjárlaga, um 1.500 milljarða kr. sem hafa áhrif um allt hagkerfið. Spurningar mínar og m.a. það sem kom fram í fundarstjórn áðan sneri að þeim atriðum. Getur hæstv. forsætisráðherra svarað mér og okkur í Samfylkingunni, okkur í stjórnarandstöðunni, fólkinu þarna úti hvernig stendur á því að á tímum sem þessum sé 5.000 manns hent út úr vaxtabótakerfinu milli ára? Það er 25% lækkun. Það er skerðing um 700 milljónir milli ára. Hvernig stendur á því að þessi ríkisstjórn, sem ætlar að halda utan um fólkið í landinu, er að skerða að raunvirði barnabætur til tekjulægsta fólksins? Og hvernig stendur á því að húsnæðisbætur fara lækkandi á milli ára þrátt fyrir verðbólgu? Þessum spurningum verðum við að svara þrátt fyrir ástandið sem er til staðar í Grindavík. Við tökum öll höndum saman (Forseti hringir.) í tengslum við það en við getum ekki horfið frá grundvallarverkefnum í efnahagsmálum þjóðarinnar og hæstv. forsætisráðherra ber að svara því hvað henni þykir um þessi mál.