154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

áætlanir um viðbrögð við náttúruvá.

[11:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, við búum í landi þar sem er mikil eldvirkni. Að sumu leyti hefur það nú verið okkar gæfa að búa við til að mynda hitaveitu sem beinlínis er nátengd eldvirkni. Það er hluti af því að búa á þessu landi. Hv. þingmaður nefndi hér ýmsar eldstöðvar nánast hringinn í kringum landið, enda fá svæði nema elstu svæðin jarðfræðilega sem eru nokkurn veginn ósnortin af mögulegum jarðhræringum. Ég tel hins vegar að það hafi verið ráðist í — af því að hv. þingmaður nefndi það í sinni fyrirspurn — það var auðvitað ráðist strax í undirbúning um leið og eldvirkni hófst að nýju á Reykjanesskaga, og það hefur verið unnið að því allt frá því að hún birtist fyrst. Óróatímabil hófst í árslok 2019. Það hefur verið mikil umfjöllun í stjórnkerfinu og í raun og veru allt frá árinu 2020, þrátt fyrir heimsfaraldur sem þá gekk yfir, um þessi mál.

Ég ætlaði að taka undir hins vegar með hv. þingmanni að það sem hefði mátt mögulega gera betur er að eiga þverpólitískara samtal um þau málefni. Við höfum vissulega rætt þetta í þjóðaröryggisráði allnokkrum sinnum, rætt þetta í ríkisstjórn og ráðherranefndum. Það er búið að greina mjög vel mögulega áhættu á þessu svæði. Það er búið að setja niður ólíkar sviðsmyndir. Hins vegar er staðan auðvitað sú, og það kemur til að mynda fram í mjög nýlegri skýrslu Veðurstofunnar, að til að mynda það að ráðast í forvarnaaðgerðir eins og við ákváðum að gera núna í kringum Svartsengi er alltaf hættuspil vegna óvissu og ekki rétt að ráðast í slíkar aðgerðir bara nánast út í bláinn, samkvæmt mati Veðurstofunnar.

En spurning hv. þingmanns var í raun og veru: Er hægt að eiga betra þverpólitískt samtal um þessi mál? Já, ég tek undir það. Þótt það hafi að einhverju leyti átt sér stað á vettvangi þjóðaröryggisráðs, tel ég að það séu full rök til þess að útvíkka það samtal enda held ég að við höfum ekki, því miður, séð það síðasta af jarðhræringum á Reykjanesskaga né annars staðar á landinu.