154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

ráðstafanir til varnar byggð í Grindavík.

[11:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum eygja nú Grindvíkingar aukna von um að fá að komast heim um tíma til að skoða fasteignir sínar og sækja fleira af því sem þeir þurfa á að halda þaðan. Þetta er vegna þess að vísindamenn telja nú minni líkur en áður á að gos, komi það upp, komi upp í bænum eða rétt við hann, telja að líkur standi til að gos komi upp norðaustur af Grindavík, í nokkurri fjarlægð en þó ekki það langt frá bænum að hraun gæti ekki runnið þangað í stærra gosi. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða ráðstafana hefur verið gripið til eða verður gripið til til þess að verja byggðina í Grindavík? Eins og við þekkjum eru farnar af stað heilmiklar framkvæmdir til að verja Svartsengi og Bláa lónið, en hvaða leiðir sjá menn til að verja byggðina í Grindavík, sérstaklega ef það stefnir í að ef gýs þá verði það þarna norðaustur af bænum?

Einnig spyr ég ráðherrann út í aðrar hugsanlegar ráðstafanir sem annaðhvort hefur verið gripið til eða stendur til að grípa til til að verja bæinn og ráðstafanir til að takast á við ólíkar sviðsmyndir, til að mynda ef flugsamgöngur myndu raskast, þ.e. að ekki yrði hægt að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í einhvern tíma. Hafa stjórnvöld hugað að því að undirbúa þá aðra flugvelli, aðra millilandaflugvelli á Íslandi, til að taka á móti þeirri umferð á meðan?