154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[11:54]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu, málshefjanda og hæstv. ráðherra. Ég minni á hversu stolt við vorum af Landhelgisgæslunni, þau okkar sem munum eftir þorskastríðinu. Það voru alvöruátök á hafi úti, vísvitandi árekstrar og ögranir og ógnanir. Þá var kalda stríðið viðvarandi en ástandið í heiminum ekki jafn ógnvænlegt og við blasir í dag. Ég vil taka undir þau orð hæstv. ráðherra að við þurfum fyrst og fremst að horfa til framtíðar. Hvernig kemur hún til með að blasa við innan fárra ára? Vonandi ekki svona, en mögulega þó: Harðnandi átök í heiminum, að einhvers konar þriðja heimsstyrjöld verði brostin á með viðvarandi ógnum fyrir alla jarðarbúa, viðvarandi hótunum um atómsprengjur, kjarnorkuvopn og viðvarandi hættu þeirra sem búa að jafn ríkulegum auðlindum, matvælaframleiðslu og orku, grænni orku, og Íslendingar. Þá kynni þessi konfektmoli efst á jarðarkúlunni að gerast æðigirnilegur og ómótstæðilegur fyrir þá sem svífast einskis og við horfum á það í dag hversu viðbjóðslegt framferði þjóðanna er sem nú takast á. Við skulum vona að við drögumst ekki betur inn í það. En ég vil deila því hér og beina því til hæstv. ráðherra að ég átti fund síðastliðið sumar með sérfræðingum í Santa Barbara sem bentu okkur á það að ef við ætluðum að gerast ósnertanleg hér þá væru til leysigeislavopn sem væri hægt að koma fyrir á skipum sem myndu verja okkur fullkomlega fyrir hvers kyns ógnum sem að (Forseti hringir.) okkur steðja úr lofti eða hafi. Þetta eru ógnvænleg vopn sem gætu gjöreytt þeim árásaraðila (Forseti hringir.) sem svo kýs að haga sér. Ég vil bara að nefna þetta hérna, (Forseti hringir.) ég vil ekki sitja einn að þessari vitneskju og ég get sent bæði tölvupóst og símanúmer ef beðið er um.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutímann sem er tvær mínútur.)