154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[12:04]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Lengi hefur verið um það rætt að færa Landhelgisgæsluna suður með sjó og hafa Suðurnesjamenn barist fyrir því í áratugi. Landhelgisgæslan hefur smátt og smátt verið að auka við starfsemi sína á Keflavíkurflugvelli og má gera ráð fyrir að sú starfsemi komi bara til með að eflast til framtíðar í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er á alþjóðavettvangi. Þann 26. maí síðastliðinn undirrituðu þáverandi dómsmálaráðherra, fulltrúi Landhelgisgæslu Íslands, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og hafnarstjóri Reykjanesbæjar viljayfirlýsingu þar sem fram kemur að Reykjaneshöfn muni standa að uppbyggingu hafnar og landaðstöðu fyrir tæki og búnað Gæslunnar. Markmiðið yrði að heimahöfn skipa Gæslunnar yrði í Reykjaneshöfn í framtíðinni að frátalinni útgerð varðskips á Norðurlandi en heimahöfn varðskipsins Freyju er Siglufjörður. Þarna er því verið að gera ráð fyrir að varðskipið Þór hafi heimahöfn í Njarðvíkurhöfn við Skipasmíðastöð Njarðvíkur þar sem gert er ráð fyrir verulegri uppbyggingu. Gert hefur verið ráð fyrir ákveðnum fjármunum í gildandi samgönguáætlun en þeir fjármunir duga hins vegar ekki fyrir heildarkostnaði sem reikna má með að verði u.þ.b. 1 milljarður. Því er áætlað að afnot Gæslunnar af fyrrnefndri aðstöðu verði grundvöllur m.a. að langtímaleigusamningi milli hennar og Reykjaneshafnar, þ.e. að höfnin byggi en Landhelgisgæslan leigi. Nú hefur Reykjaneshöfn ákveðið að hefja framkvæmdir við Njarðvíkurhöfn þar sem þessi aðstaða Landhelgisgæslu Íslands verður m.a. byggð upp. Það er því orðið aðkallandi, virðulegur forseti, að fá endanlegar upplýsingar um hvernig sú aðstaða á að vera og að ljúka við gerð samkomulags um leigugreiðslur fyrir þá aðstöðu. Sú vinna hvílir á herðum Landhelgisgæslunnar sjálfrar og dómsmálaráðuneytisins og nauðsynlegt að koma í veg fyrir að tafir verði á þessari mikilvægu framkvæmd.