154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[12:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að það er mjög einfalt mál að styðja Landhelgisgæsluna. Það er með því að greiða atkvæði með auknum fjárveitingum til Landhelgisgæslunnar. Kannski að 1. varaformaður fjárlaganefndar átti sig á því. Landhelgisgæslan gegnir mikilvægu hlutverki í landinu og hefur gert það frá stofnun 1926. Stofnun hennar var hluti af sjálfstæðisbaráttunni og gegndi stofnunin gríðarlega miklu hlutverki í þorskastríðunum þremur. Það er áhugavert að virðing fyrir Landhelgisgæslunni — ég heyri að hún er mikil hér í salnum — er mun meiri erlendis en hér á landi, svo það komi fram. Ég hef rætt þetta við aðila sem tengjast Landhelgisgæslunni og þeir eru sammála mér. Við erum herlaus þjóð sem þýðir að Landhelgisgæslan, strandgæslan í kringum landið, gegnir enn þá veigameira hlutverki en ella. Við eigum að sjá sóma okkar í því að sjá til þess að Landhelgisgæslan og lögreglan fái nægilegt fjármagn til að sinna skyldum sínum og gera það vel, ekki síst með tilliti til þess að við erum herlaus þjóð. Við erum ekki með þann bagga að þurfa að setja mikla fjármuni í herútgjöld.

Landhelgisgæslan gerir lítið gagn ef hinn öflugi tækjakostur er ekki notaður. Þessi tækjakostur þarf að vera í fullri notkun og ónotaður tækjakostur gerir lítið gagn. Að Landhelgisgæslan þurfi að fara til Færeyja til að spara til olíukaupa er bara hneyksli að mínu mati. Það sem hér er til umræðu sýnir að Landhelgisgæslan er ekki nægilega í stakk búin til að gegna hlutverki sínu. Hún þarf meira fjármagn. Ég skora á hæstv. dómsmálaráðherra að svara þeim spurningum sem eru lagðar fyrir hana í þessari umræðu, sem eru fjórar: Hvað ætlar ráðherra að gera í stöðunni? Verður rekstur Landhelgisgæslunnar styrktur til að tryggja öryggi í landinu? Verður fallið frá aðhaldskröfu á Landhelgisgæsluna á komandi ári? (Forseti hringir.) Hvernig má vera að einungis 100 millj. kr. eigi að vera til að sinna 20 milljarða tækjakosti? Ég skora á dómsmálaráðherra að svara þessum spurningum (Forseti hringir.) vegna þess að hún hefur afar miklar áhyggjur af þessu og veit að stofnunin þarf aukið fjármagn. Hvað ætlar hún að gera og hvernig svarar hún þessum spurningum sem hér eru til umræðu?

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill ítreka að ræðutíminn er tvær mínútur.)