154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[12:16]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Eins og fram er komið þá gegnir Landhelgisgæslan mikilvægu hlutverki í samfélaginu og verkefnin sem hún sinnir eru fjölbreytt, þau byggjast annars vegar á lögbundnum skyldum og hins vegar á verkefnum sem heimilt er að gera þjónustusamninga um. Öll treystum við á Landhelgisgæsluna í almannavarnahlutverkinu og við öryggisgæslu á hafinu, við leit og björgun á hafi og ótrúlega oft á landi líka. En hér langar mig aðeins að velta fyrir mér samningsbundnum þjónustuverkefnum sem eru ýmis og eitt af þeim er almennt sjúkraflug og aðstoð við læknisþjónustu. Umræðan um samstarf heilbrigðiskerfisins og Landhelgisgæslu finnst mér hins vegar oft á tíðum mjög misvísandi, jafnt almenna umræðan, faglega umræðan og pólitísk umræðan, um það hvað skynsamlegast er að gera varðandi samvinnu á þessu sviði og vildi ég gjarnan heyra afstöðu ráðherra til þessa. Hér ber okkur skylda til að velta fyrir okkur hvar almannahagsmunirnir liggja, bæði hvað varðar öryggi og nýtingu fjármuna. Ég veit ekki hvort skynsamlegra er að auka hlutverk Landhelgisgæslunnar varðandi aðstoð við læknisþjónustu og almennt sjúkraflug með þyrlum eða flugvélum. Ég veit hins vegar að það liggur fyrir að við þurfum að bæta viðbragð á svæðum fjarri Reykjavík, svo sem með staðsetningu þyrlu á Akureyri eða annars staðar á norðausturhluta landsins og, ef vel ætti að vera, líka með minni þyrlu til sjúkraflutninga á Suðausturlandi.

Það sem ég vil draga fram með þessari umræðu er að við megum aldrei horfa á mikilvæga starfsemi eins og starfsemi Landhelgisgæslunnar sem eyland. Við verðum að horfa á hana í samhengi við önnur verkefni sem samfélagið þarf að leysa, út frá heildarhagsmunum og sem bestri nýtingu almannafjár á hverjum tíma.