154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[12:33]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Orri Páll Jóhannsson, Bjarni Jónsson, Jódís Skúladóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Tillögutextinn sjálfur er stuttur og einfaldur og hljómar svona:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna heildstæða stefnu um daglegar, gjaldfrjálsar, næringarríkar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.“

Með þessari stuttu og skorinortu tillögu fylgir allnokkur greinargerð þar sem rakið er og rökstutt hvers vegna við teljum þetta góða og mikilvæga tillögu.

Holl og góð næring er grunnþáttur í þroska barna og ungmenna og mikilvæg fyrir vöxt þeirra. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir stuðla að jafnrétti þar sem allir nemendur fá hollan og næringarríkan mat óháð stöðu forráðafólks. Matarmenning og viðhorf til matar mótast einnig í grundvallaratriðum á skólaaldri. Því er matur og stuðningur skólanna við mataruppeldi einkar mikilvægur þáttur í þroska nemenda og getur haft afgerandi áhrif á heilsufar til framtíðar.

Með tillögunni er barna- og menntamálaráðherra sem sagt falið að vinna heildstæða stefnu um þessi mál en með tillögunni er jafnframt horft til þess að útvíkka hlutverk matmálstíma í skólum með þeim hætti að þeir verði einnig gagnvirkur hluti af námi þar sem nemendur fræðast um mat og mataræði í samræmi við þau markmið sem eru nú þegar í aðalnámskrá grunnskóla í heimilisfræði. Sé vel á málum haldið styðja skólamáltíðir við námsárangur barna, næringu, heilsu og almenna vellíðan. Þannig verður matur sem borðaður er í skólanum ekki einungis mikilvægur næringar- og orkugjafi heldur einnig hluti af sjálfbærnikennslu, næringarfræði og lífsleikni.

Tillöguflytjendum er kunnugt um það að nú þegar bjóða sveitarfélögin Fjarðabyggð og Þingeyjarsveit upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum og í Þingeyjarsveit á það sama raunar einnig við um leikskóla sveitarfélagsins. Það kann að vera að þetta sé einnig í fleiri sveitarfélögum og það væri nú bara gaman ef það kæmi þá fram í meðferð nefndar um málið.

Það er hins vegar staðreynd að skólamáltíðir eru ekki gjaldfrjálsar á flestum stöðum í landinu og raunar liggja fyrir tillögur allvíða um það að skólamáltíðir muni koma til með að hækka umtalsvert á milli ára og það sama gildir um síðdegishressingar, þær munu einnig hækka í verði. Á það hefur til að mynda verið bent að fyrirhugað er á Seltjarnarnesi að hækka skólamatinn um 45% og í Reykjanesbæ um 18%. Munurinn á milli einstakra sveitarfélaga er umtalsverður og á milli hæsta og lægsta verðs sem forráðamenn greiða fyrir skólamáltíðir er munurinn þar sem hann er mestur 71% og 152% þegar kemur að síðdegishressingunum. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla hefur bent á að þetta sé áhyggjuefni og lýsir yfir áhyggjum af þessari þróun, að afleiðingarnar geti verið mjög alvarlegar og það megi reikna með því að foreldrar sjái sér mögulega ekki annað fært en að segja upp mataráskriftum. Ég myndi því segja að hér sé mál sem talar algerlega inn í okkar samtíma.

En það er fleira en það að máltíðirnar verði gjaldfrjálsar sem skiptir máli. Matartími í skólum skiptir máli þegar kemur að bættum matarvenjum og umgengni við mat og matvæli. Matmálstímana má til að mynda nýta til þess að auka þekkingu nemenda og meðvitund um áhrif daglegar neyslu matvæla. Með góðu og heilnæmu umhverfi og næringarríkum skólamáltíðum er hægt að stuðla að góðum matarvenjum og auka matargleði. Mér finnst mikilvægt að börn eins og annað fólk geti borðað í ró og notið matarins í skólanum, jafnframt því að kynnast matvælum og læra að borða heilsusamlega. Það er of algengt að matartími barna í grunnskólum einkennist af tímaskorti og að neita þurfi matarins í flýti til að komast í frímínútur.

Ég ræddi þetta, auðvitað ekki við eitthvert vísindalega tekið úrtak, en ég hef í aðdraganda undirbúnings þessa máls rætt þetta við nemendur í grunnskólum eða sem nýlega hafa lokið grunnskóla og mörg þeirra einmitt minntust á að það væri oft þessi hamagangur í matartímanum sem einnig hefði áhrif á það hvernig þau njóta matar síns. Það er of algengt að börn þrói með sér slæmt samband við mat sem getur leitt til alvarlegra og langvinnra veikinda sem einkennast af truflun á mataræði og eru samspil líkamlegra, félagslegra og sálrænna þátta í formi átraskana og ofþyngdar. Það er nánar fjallað um þessi atriði í greinargerðinni án þess að ég ætli að rekja þau eitthvað frekar hér í þessari framsöguræðu.

Sjálfbærni er líka einn af grunnþáttum menntunar samkvæmt aðalnámskrá. Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Matmálstíma með hollum og næringarríkum mat má nota sem undirstöðu í kennsluefni í sjálfbærni, svo sem um það hvaðan maturinn kemur, hvernig hann er ræktaður, hvernig vinna má gegn matarsóun og nýta afganga í moltugerð. Þetta eru einnig þættir sem er mikilvægt að börn fræðist um. Hér held ég að ef vel myndi til takast gætu skólarnir orðið uppalendum mikilvægt styðjandi afl til þess að fræða börn, ekki aðeins um mikilvægi hollrar næringar heldur einnig um það hvaðan maturinn kemur, hvert hann fer og hvernig megi nýta hann með betri hætti.

Frú forseti. Ég vil aðeins nefna sjónarmið ungmenna en samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni barna hefur töluvert verið rætt um skólamál og skólamáltíðir á barnaþingum liðinna ára. Þar hefur áhersla m.a. verið lögð á að öll börn ættu að fá mat, að hollur og góður matur eigi að vera ódýrari og að boðið sé upp á fjölbreyttara og betra fæði. Mér finnst gaman að segja frá því að á því borði sem ég fékk að taka þátt í umræðum á barnaþingi, sem var haldið síðastliðinn föstudag, þá voru einmitt gjaldfrjálsar skólamáltíðir einn af punktunum sem krakkarnir á því borði nefndu og töldu mikilvægt.

Við vinnslu þessa máls aflaði ég upplýsinga um fyrirkomulag skólamáltíða á hinum Norðurlöndunum en umgjörð og skipulag skólamáltíða er mjög misjafnt þar. Stefnan í Svíþjóð og Finnlandi er að bjóða upp á ókeypis og næringarríkan hádegismat fyrir alla nemendur á meðan í Noregi og Danmörku er meira um það að nemendur komi með eigið nesti. Að einhverju leyti má segja að okkar kerfi svipi til Danmerkur en ekki er samt hægt að segja að hér sé um sömu kerfin að ræða. Þetta er allt rakið í greinargerðinni en mig langar að nefna það hér að ég tel að Finnland ætti að vera okkar fyrirmynd þegar kemur að þessum efnum. Skólamáltíðir eiga sér langa hefð í Finnlandi og í meira en 70 ár hefur verið boðið upp á gjaldfrjálsar máltíðir fyrir alla. Þar er litið á þetta sem mikilvægan þátt í jafnrétti til menntunar en árið 1948 tóku gildi lög um ókeypis máltíðir fyrir alla nemendur og þar er þetta raunar allt frá leikskólum og upp í framhaldsskóla.

Í Svíþjóð var farið að veita ríkisstyrki til sveitarfélaga árið 1946 svo hægt væri að bjóða upp á ókeypis og næringarríkar máltíðir í skólum fyrir alla nemendur. Það kerfi hefur svo þróast áfram og nú er það svo að skólamáltíðir í Svíþjóð eru fjármagnaðar með útsvarsgreiðslum. Í Noregi er hins vegar ekkert almennt fyrirkomulag um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en þar hafa menn verið að skoða ýmsar leiðir í þessum efnum og í Danmörku er heldur engin skólamáltíðastefna. Í Kaupmannahöfn er hins vegar verið að skoða hvernig hægt sé að innleiða skólamáltíðir og á sama tíma gera það hluta af náminu. Þetta er ekki ósvipuð hugmynd, þótt ég þekki hana ekki alveg til hlítar, og sú sem verið að leggja hér til. Kaupmannahöfn tekur þátt í alþjóðlegri tilraun þar sem sveitarfélagið er hluti af verkefninu Schoolfood4change þar sem markmiðið er að breyta 3.000 skólum í svokallaða matarskóla í 16 borgum í 12 löndum Evrópu. Það er hlekkur á þessa heimasíðu en þeir sem leita á netinu eftir Schoolfood4change geta þar kynnt sér þær hugmyndir sem er verið að vinna með.

Frú forseti. Víða er hugað að samfélagslegum ávinningi af daglegum, gjaldfrjálsum, næringarríkum skólamáltíðum og sérfræðingar sem hafa tekið þátt í áðurnefndu verkefni, Schoolfood4change, hafa t.d. bent á að ef stjórnvöld vilji ná tökum á vaxandi offitu barna þá verði börn í Evrópu að fá a.m.k. eina næringarríka skólamáltíð á dag. Bent hefur verið á að um þriðjungur grunnskólanema í Evrópu sé annaðhvort of þungur eða glími við offitu en um fjórðungur eigi á hættu að lifa við fátækt og félagslega útilokun. Það er heldur ekki vænlegt þegar kemur að árangri og þess að geta einbeitt sér og liðið vel í skóla.

Ég tel að ég hafi hér rökstutt hversu mikilvægt það er að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Þetta er ekki aðeins brýnt til að draga úr ójöfnuði og stuðla að því að öll börn séu södd og fái næringarríka máltíð í skólunum heldur er einnig um heilsufarslegt og uppeldislegt atriði að ræða, auk þess sem þetta styður við sjálfbærniviðmið og getur hjálpað til við að gera börn meðvituð um mikilvægi sjálfbærni þegar kemur að matarmálum.

Frú forseti. Ég vona að þetta mál hljóti jákvæðar viðtökur hér á Alþingi og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. velferðarnefndar.