154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[12:51]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að taka efnislega undir markmið þessarar þingsályktunartillögu. Ég hafði ekki tekið eftir þessu máli frá hv. þingmanni sem ég tel allrar skoðunar virði því að sjálfsögðu skiptir næring framhaldsskólanema líka máli. Ég verð þó að viðurkenna að ég held að það sé mikilvægara að byrja á yngri börnunum. En um leið og ég segi það þá vil ég ekki gera lítið úr mikilvægi hins því ég er alveg sannfærð um að það er einnig mikið. Ástæðan fyrir því að ég legg þetta mál fram í formi þingsályktunartillögu en ekki einhvers konar lagafrumvarps, sem væri þá í meiri boðhætti, ef við getum sagt svo, til sveitarfélaganna, er að ég átta mig alveg á því að það þarf að huga að útfærslunni. Sveitarfélögin eru mörg og misjöfn en eins og ég nefndi eru ákveðin sveitarfélög sem eru nú þegar farin að bjóða upp á gjaldfrjálsar máltíðir. En líkt og ég sagði þá tel ég að það eigi að skoða mál hv. þingmanns með jákvæðum augum því að næring framhaldsskólanemana skiptir máli. Ég held þó að í uppeldislegum og þeim samfélagslega skilningi þá séu grunnskólamálin brýnni og það sést m.a. á því að annars staðar í Evrópu er það sá aldur sem verið er að leggja megináherslu á.