154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[12:55]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér virðist nú að hv. þingmaður ætli að reyna að snúa einhvern veginn ævintýralega út úr orðum mínum þar sem ég tók jákvætt í hans mál, hafði rakið það í minni framsögu að í Finnlandi væri þetta upp í menntaskólann en lagði engu að síður áherslu á að ég teldi hitt mikilvægara vegna þess að þar erum við að ná til barna sem eru yngri. Það að ég segi það þýðir ekki að ég sé á einhvern hátt að reyna að fría ríkisstjórnina ábyrgð á því að koma inn í hin málin, svo sannarlega ekki. Ég er hins vegar hér að tala fyrir máli sem snýst um gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir grunnskóla. Það er það sem ég er fyrst og fremst að tala fyrir hér.

Hins vegar finnst mér mál hv. þingmanns um gjaldfrjálsar skólamáltíðir (Gripið fram í.) — það er rétt, greinargerðin fjallar að langmestu leyti um stöðu grunnskólanna og þar held ég að megináherslan eigi að vera. Ég held að það skipti líka máli að máltíðirnar séu gjaldfrjálsar í leikskólum. Þetta held ég að séu allt atriði sem þurfi að koma til skoðunar. En á sama tíma og ég er algerlega á því að það eigi að skoða það að vera með niðurgreiðslu og bæta næringarinntöku barna á framhaldsskólaaldri þá er minn punktur sá að ég held að grunnskólastigið sé það stig sem mesta áherslan þurfi að vera á. Þar með er ekki sagt að áherslan eigi ekki að vera á fleiri stigum.