154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[12:59]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er ýmislegt mjög spennandi að gerast í ýmsum grunnskólum landsins þegar kemur að matarmálum skólanna. Tímans vegna þá náði ég ekki að rekja allt það sem nefnt er í greinargerðinni með frumvarpinu, því að hún er nokkuð löng og ítarleg og skemmtileg og fræðandi vil ég leyfa mér að halda fram, en þar eru einmitt tekin sem dæmi verkefni sem grunnskólinn á Grenivík er að vinna og einnig fjallað um það starf sem er í gangi í grunnskólanum á Djúpavogi. Efalaust eru verkefnin mun fleiri víða um land en þetta voru ábendingar sem ég fékk við vinnslu þessa frumvarps og væri bara gaman að vita ef fleira bættist í sarpinn við meðferð málsins á Alþingi.

Já, það er örugglega hægt að ná ýmsu fram í að bæta matarmenningu í skólum án þess að skólamáltíðirnar séu gerðar gjaldfrjálsar. Ég vil hins vegar nefna að með því að gera það ekki þá næst ekki fram markmiðið um jöfnuð þar sem allir nemendur fái gjaldfrjálsar máltíðir og það þurfi ekkert að koma til eitthvert sérstakt kerfi þar sem þau sem um það sækja þurfi ekki að greiða, því að við vitum að það hafa ekki öll börn alltaf forráðamann sem endilega fattar að standa í slíku.