154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[13:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka til máls í þessari umræðu um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra og þessa þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna stefnu um þetta. Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli, hafandi eins og fleiri setið einmitt í sveitarstjórn. Ég man þegar var verið að fresta því árið 2007 að innleiða skólamáltíðir í grunnskólanum í mínum heimabæ vegna þess að bæjarstjórnin treysti sér ekki til að setja það á dagskrá sökum kostnaðar. Það var svo tekið upp skömmu síðar, sem betur fer, því bara það að geta yfir höfuð boðið upp á máltíðir í skóla skiptir máli. Það er út af fyrir sig eitthvað sem við áttum að gera á þeim tíma og sem betur fer held ég að allir skólar geri það í dag.

Það sem mér finnst vera kannski stærsti þátturinn í þessu er einmitt jöfnunin sem í þessu felst. Jú, jú, peningarnir koma ekki af himnum ofan, við vitum það alveg. Það eru íbúar sem greiða þetta með sínu útsvari, það er nú bara þannig. En þetta er tilraun til að jafna stöðu og bjóða um leið upp á hollan og næringarríkan mat og við getum ekkert horft fram hjá þeirri staðreynd, hvað sem fólki finnst um það, eins og hér hefur aðeins verið farið inn á, að aukin óhollusta, aukin neysla á unnum matvörum, offita — allt er þetta eitthvað sem skiptir hér máli. Við höfum stundum talað um svokallaðan sykurskatt hér á Alþingi og það er eitt af því sem ég hef gjarnan verið stuðningsmaður við að verði gert af því að við stöndum frammi fyrir því að óhollustan er oft ódýrari heldur en að kaupa sér holl matvæli. Það sem er kannski áhugavert og er rakið í þessari tillögu er einmitt þegar vel hefur tekist til við bæði að innleiða umfjöllun og hugsun og þátttöku nemendanna sjálfra í því að stúdera það hvað lýðheilsa er, hvað næring er og af hverju hún skiptir máli. Það er eitt af því sem mér finnst mikil þörf á að velta upp. Núna þekkjum við að það er mikið rætt um grænt fæði, minnkandi kjötneyslu o.s.frv. Þetta er eitt af því sem ég tel mikilvægt að ræða við ung börn alveg niður í leikskóla, af hverju eitthvað eitt er betra en annað og í rauninni að kynna líka fyrir þeim fjölbreytnina.

Hafandi líka starfað hinum megin við borðið, þ.e. fengið þetta verkefni til útvistunar og sinnt þessari þjónustu, að elda ofan í grunnskólabörn, þá er líka talsverður lærdómur í því fólginn að átta sig á því að það skiptir máli hvernig þú berð matinn fram með því hugarfari að reyna að fá þau til að prófa og smakka eitt og annað sem þau kynnast kannski bara alls ekki heima hjá sér. Það er alveg út af fyrir sig eitthvað sem mér alla vega fannst mjög áhugavert að fara í gegnum. Þetta skiptir máli. Maður sá það að hægt og rólega voru sum börn farin að borða eitthvað sem þau fussuðu við í upphafi fyrir utan það auðvitað að kynna fyrir þeim ýmsan mat. Leikskólarnir hafa margir hverjir verið mjög duglegir við að kynna börnum mat sem kannski er ekki á borðum heima hjá þeim og þennan þjóðlega þá helst. Auk þess er hægt að kynna þeim þann mat sem er í nærsamfélaginu okkar og það sem við í rauninni erum að framleiða, við sem erum í sjávarútvegsplássum, hvað kemur á land þar og hvers konar fiskur, og þeir sem eru í landbúnaðarhéruðum eitthvað annað, grænmeti og annað slíkt. Þetta skiptir allt miklu máli til þess að gera þau meðvitaðri, ekki síst í ljósi þess að flestar stærstu verslanirnar eru smekkfullar af tilbúnum mat og ég ætla að leyfa mér að segja að það er ekki endilega allt saman fullt af hollustu, það eru alls konar aukefni og dót sem í því er, sem er ekki endilega það allra besta eða samsetningin á því sem í boði er. Þannig að ég held að fyrir utan að jafna aðstöðu barna og hafa aðgengi að góðri fæðu, sem mér finnst vera númer eitt, tvö og þrjú í þessu, þá kemur þessi fræðsla sem er svo mikilvæg í kjölfarið, einmitt til þess, eins og ég sagði, að gera börnin meðvitaðri um það af hverju það er gott að borða svona en ekki hinsegin og svo að ég tali nú ekki um það sem er í umræðunni í dag um kolefnisspor matvæla og allt það sem þau eru kannski ekkert endilega að velta fyrir sér en er svo sannarlega þörf á að gera þau meðvituð um enn frekar.

Það sem rakið er í þessari þingsályktunartillögu og vitnað til Norðurlandanna er áhugavert, hversu misjafnt það er, það verður sannast sagna að segja. Þar hafa Finnar náð kannski hvað bestum árangri. Ef maður hugsar um það, en það var árið 1948 sem þeir tóku ákvörðun um að gera skólamáltíðir ókeypis fyrir alla nemendur, þá erum við kannski dálítið langt á eftir og getum kannski illa hengt okkur í það að sveitarfélögin séu svo illa stödd að þau geti ekki tekist á við þetta. Um leið og ég segi það þá veit ég vel að við þurfum að búa til fleiri kosti í tekjustofnum sveitarfélaga og hef alltaf talað fyrir því.

En fyrst og fremst eru afleiðingarnar af því sem hér er rakið ótvíræðar, það eykur lýðheilsu að fá eina næringarríka máltíð a.m.k. á dag. Þetta kemur í veg fyrir að fátæk börn fái þá a.m.k. ekki eina máltíð á dag. Það er talað um að námsárangur sé mælanlega betri. Það er talað um að mæting sé líka betri og þetta, hafandi, eins og ég segi, starfað í skóla sem kennari þá hefur maður því miður séð hvernig eitt og annað hefur áhrif á námsáhuga, mætingu og annað slíkt. Og þetta er klárlega eitt af því, að þú sért ekki með svanga nemendur í skólanum.

Mér finnst þetta afskaplega gott mál og ég vona svo sannarlega að það komist áfram og jafnvel þó að það kæmist ekki áfram einu sinni í þinginu, þótt ég voni það og hlakki til að takast á við það í nefndinni, þá er þetta eitt af því sem ég myndi bara mælast til að ráðherrann tæki upp hjá sjálfum sér og færi í að skoða því að ég held að þetta sé þess eðlis, því um leið og verið er að stuðla að aukinni lýðheilsu nemenda er verið að minnka álag á kerfið einhvers staðar annars staðar. Þannig að ég vona svo sannarlega að hvernig sem fer þá nái þetta mál fram að ganga