154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[13:59]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil í lokin á þessari umræðu þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt. Það er alltaf gaman þegar það verða fjörlegar umræður hér í þingsal og ýmis sjónarmið koma fram. Flest sem hafa talað hafa lýst sig fylgjandi málinu og komið með ýmsar ábendingar inn í það sem ég vil bara þakka fyrir. Ég er sammála hv. þm. Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni um að það er ekkert einfalt mál að fá börn og ungmenni til að borða þann mat sem er á boðstólum hverju sinni. Það er vandasamt að framreiða mat fyrir stóra hópa af fólki í einu og þá er alveg sama á hvaða aldri neytendur matarins eru. Þetta er að sjálfsögðu atriði sem er ekki auðvelt en hins vegar svo gríðarlega mikilvægt að standa vel að.

Mig langar líka að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ábendinguna varðandi Voga á Vatnsleysuströnd. Það er rétt að það sveitarfélag er ekki talið upp í greinargerðinni, einfaldlega vegna þess að mér var ekki kunnugt um það, og líkt og tekið er fram þá taldi ég upp þau sveitarfélög sem okkur flutningsmönnum var kunnugt um að væru með gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Ég held að það gæti verið mjög áhugavert í meðferð velferðarnefndar með þetta mál að kalla sveitarfélagið Voga á Vatnsleysuströnd til fundar við nefndina til að segja frá sinni reynslu.

Varðandi atriðið sem lýtur að sjónarmiði um dýravelferð og minni kjötneyslu þá er þetta atriði, líkt og talað er um í greinargerðinni, sem kom fram á barnaþingi. Þetta er í rauninni ekki mín tillaga heldur erum við flutningsmenn eingöngu að vekja athygli á því að þetta er atriði sem hefur komið til umræðu á barnaþingi, og mér finnst mikilvægt að byggja á þeim sjónarmiðum sem við þó þekkjum um afstöðu þeirra sem málið tekur til.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir telur það ekki hlutverk ríkisins eða ráðherra að koma inn á þessi efni og það kemur kannski ekki á óvart að þar eru ég og hv. þingmaður ósammála, vegna þess að ég tel að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hafi ákveðið stefnumótandi hlutverk í þessum málum. Ég geri alls ekki lítið úr því að mörg sveitarfélög eru að vinna mjög vel með skólamat og ýmsar ólíkar leiðir sem verið er að fara. Með þessari tillögu er ekki verið að leggja til að allir eigi að borða það sama alla daga heldur að móta umgjörðina betur, umgjörð sem er að einhverju leyti þegar fyrir hendi í námskrá grunnskóla en ég held að hægt að sé prjóna við. Ég er alveg sammála því að auðvitað er það meginhlutverk foreldra að fæða og klæða börn sín en hið opinbera kemur að umgjörð barna með margvíslegum hætti og ég tel að gjaldfrjálsar skólamáltíðir séu mikilvægt jöfnunartæki, eins og hér hefur verið komið inn á, og að skólarnir geti hér verið í styðjandi hlutverki við foreldrana, að sjálfsögðu ekki að þeir taki einhvern veginn fram fyrir hendurnar á þeim heldur geti einmitt stutt við með margvíslegum hætti og þá ekki síður við þau börn sem jafnvel eiga ekki forráðamenn eða eru ekki gripin af því kerfi sem við erum með núna. Ég ætla alls ekki að segja að það kerfi sé ómögulegt, því að ég held að það sé bara um margt mjög gott, en ég held hins vegar að það sé hægt að gera það betra með því að gera skólamáltíðirnar gjaldfrjálsar.

Svo vil ég bara að lokum þakka fyrir hrósið í garð greinargerðarinnar. Ég hef lent í algjörlega andstæðum hlut, verið sammála tillögutexta en algerlega á móti greinargerðinni, þannig að þetta getur verið alls konar. Ég vona hins vegar að þessi umræða sem hér hefur verið í dag, auk þeirra atriða sem talin eru upp í greinargerðinni og eru auðvitað ekkert endilega tæmandi, á þessu máli eru enn fleiri hliðar, verði velferðarnefnd þingsins gott veganesti í það að vinna þetta mál áfram. Ég ætla að leyfa mér að vona að síðar á þessu þingi gætum við jafnvel fengið það aftur inn í þennan þingsal til síðari umræðu og vonandi samþykktar.