154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri.

83. mál
[14:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langa tölu um þetta, aðeins að lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu af því að hún er mjög skynsamleg á margan hátt. Við erum auðvitað fyrst og fremst að tala um heilbrigðismál. Hún lýtur auðvitað að því að lög um heilbrigðisþjónustu, sem eiga að tryggja öllum sem jöfnust eða jöfn réttindi, sé hægt að uppfylla. Það má ekki gleyma því að Sjúkrahúsið á Akureyri er mjög sterkt bakbein fyrir íbúa á öllu Norður- og Austurlandi, auðvitað fyrirtækjanna líka og síðast en ekki síst þeirrar ferðaþjónustu sem hefur verið að blómstra upp á síðkastið. Þetta er líka sterkt byggðamál. Ég flutti þingsályktunartillögu í gær um hjartaþræðingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og ætla ekki að endurtaka ræðuna sem ég hélt þá um byggðaþróunina en líklega er aldrei talað nóg um það. Við höfum komið okkur í býsna viðkvæma stöðu með þessu ójafnvægi sem hefur skapast hérna síðustu ár og áratugi þrátt fyrir að í því felist líka kostir, vissulega. Við það að styrkja svona sérhæfða starfsemi sem byggist á mikilli sérfræðiþekkingu er eins og flutningsmaður réttilega nefndi líklegt að það sé hægt að laða að sér starfsfólk.

Við höfum líka kynnst því sem höfum verið í sveitarstjórnum úti á landi í smærri bæjum að þessir sérfræðingar sem eru að koma eru oft giftir eða kvæntir og þegar verið er að leita að fólki í háskólann, sérhæfð tölvufyrirtæki eða annað þá hefur það oftar en ekki komið upp að líklega gangi það ekki vegna þess að það sé ekki starf fyrir hinn aðilann, þannig að það er ofboðslega mikilvægt að staðir sem eiga að skapa og verða að skapa mótvægi við þetta stóra þéttbýli hér á höfuðborgarsvæðinu spegli, þótt í minn minni mynd sé, sams konar samfélag, það sé fjölbreytt atvinnulíf, mikið af ólíkum störfum innan sérfræðiþjónustu, það sé öflugt og gott íþróttalíf, blómlegt menningarlíf og síðast en ekki síst þá skiptir það líka máli að það séu tengingar fyrir okkur, ekki bara til Reykjavíkur heldur líka út í heim. Flugvöllur á Akureyri með millilandaflugi skiptir t.d. alveg gríðarlega miklu máli ef sjúkrahúsinu á að takast að laða til sín sérhæft starfsfólk. Þetta er oft fólk sem hefur menntað sig erlendis, þetta er til fólk sem getur valið sér hvort það vinnur í Reykjavík, Gautaborg, Ósló, Kaupmannahöfn eða hvar sem er. Af hverju ætti það nú að velja fjörð norður í landi ef það þarf að gefa ótrúlega mikið eftir af sínum lífsgæðum og möguleikum? Allt hangir þetta saman.

Mér finnst gott það sem nefnt er í tillögunni, þetta er ágætisgreinargerð og mér finnst gott það sem er nefnt þar, að það verði að passa sig á því að við kostnaðargreininguna sé ekki lagt hrátt mat á það hvaða tekjur ríkið þurfi eða hvaða kostnað þetta feli í sér fyrir ríkið, vegna þess að kostnaður við heilbrigðisþjónustu er bara svo ótrúlega fjölbreyttur. Eitt er það hvað ríkið þarf að borga til þess að styðja við starfsemi. Hitt er það svo hvað íbúarnir þurfa að borga til að njóta þjónustunnar. Staðreyndin er sú að allt of margir og ótrúlega margir Íslendingar sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, jafnvel utan Eyjafjarðarsvæðisins, þurfa að leggja úr eigin vasa alveg ótrúlega mikið í ferðakostnað, dvalarkostnað, með tilheyrandi vinnutapi o.s.frv. Þá komum við aftur inn á samgöngurnar sem skipta höfuðmáli og eru heilbrigðismál líka, hvort sem er á landi og í lofti. Ég býst við að það hafi létt mörgum lífið eftir að loftbrúin var samþykkt en auðvitað á ekki að þurfa að nýta sér hana. Auðvitað á ferðakostnaður vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun sem þú þarft að sækja langt utan heimabyggðar að vera greiddur langt umfram þessar tvær ferðir á ári sem eru í dag.

Það er annað sem skiptir gríðarlega miklu máli, bæði við að efla þetta sjúkrahús og að gera það að háskólasjúkrahúsi. Það er sú staðreynd að fólk sem menntar sig í heilbrigðisstörfum er miklu líklegra til þess að vilja vinna úti á landi ef það er utan af landi og er alið upp úti á landi og þekkir það hvernig er að búa í fámenninu. Það er oft erfiðara, og maður skilur það vel, það er væntanlega erfiðara fyrir New York-búa að koma og setjast að í Reykjavík, alveg eins og það er erfiðara fyrir Reykvíking sem aldrei hefur kynnst neinu öðru að flytjast í 20.000 manna samfélag. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli, og Háskólinn á Akureyri hefur skipt máli þar, sérstaklega þegar kemur að sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum, að mennta starfsfólk sem á rætur sínar á þessum stöðum.

Ég fór í nokkrar ferðir í tengslum við endurskoðun Samfylkingarinnar á heilbrigðisstefnu og við hittum almenning, heilbrigðisstarfsfólk úti um allt land, á litlum og stórum stöðum. Það er eitt sem mér fannst sláandi við þessar ferðir — við fórum vissulega á stóru staðina, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en líka sem sagt á Raufarhöfn, Þórshöfn og Reyðarfjörð og fleiri staði — það er að fólk á Íslandi sem býr við þessi skilyrði, þ.e. slakari heilbrigðisþjónustu, er orðið óhuggulega nægjusamt. Það gerir oft ekki þær kröfur sem það ætti að vera að gera, það gerir kröfur um gott aðgengi, góðar samgöngur, góða sjúkraflutninga og svo vonast það til að það verði áfram læknir á stöðunum. Svo maður segi það bara beint út þá hefur maður áhyggjur af þeirri stöðu vegna þess að mjög margir læknar á þessum minni stöðum eru komnir til ára sinna og munu innan nokkurra ára hætta. Við þurfum með öllum tiltækum ráðum að manna þessar stöður aftur og ég held að Sjúkrahúsið á Akureyri, í tengslum við háskólann, geti leikið ákveðið lykilhlutverk.

Ég held að fáir myndu fagna þessu meira, eflingu Sjúkrahússins á Akureyri, en stjórnendur og starfsfólk á Landspítalanum. Það er bara mjög stórt, öflugt og sérhæft sjúkrahús og tekur auðvitað við ýktustu dæmunum en það finnur fyrir því líka þegar skóinn kreppir á Akureyri eða á Egilsstöðum, í Neskaupstað, á Ísafirði og víðar. Stjórnendur Landspítalans vilja líka að það séu öflugar einingar úti um allt land. Ég hef alla vega ekki heyrt annað.

Svona í lok umræðunnar þá hvet ég fólk til þess að kynna sér þessa þingsályktunartillögu og hana er hægt að finna á vefnum, greinargerðin er mjög góð. En það er ágætt líka að fara í sarpinn á RÚV og hlusta á mjög upplýsandi og fræðandi viðtal við formann Læknafélags Íslands um stöðuna á Akureyri m.a. og áskoranir sem þar eru, milli tíu mínútur yfir sjö og hálf átta í gærkvöldi, í dag er 23. nóvember, þannig að endilega kynnið ykkur það og þá finnur maður að allt læknasamfélagið og væntanlega allir heilbrigðisstarfsmenn í landinu eru sama sinnis. Þetta er mikið framfaraspor og þetta er mjög nauðsynlegt.