154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

sveitarstjórnarlög.

73. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Meðflutningsmenn að frumvarpinu eru Sjálfstæðismennirnir, hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson og Jón Gunnarsson.

Fjöldi sveitarstjórnarmanna er ákveðinn í 11. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar eru ákveðin lögbundin mörk um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Í 5. tölulið 1. mgr. segir þannig að þar sem íbúar séu 100.000 eða fleiri skuli aðalmenn í sveitarstjórn vera að lágmarki 23. Á þeim grundvelli fjölgaði Reykjavíkurborg einmitt fulltrúum sínum árið 2018 og hafði samkvæmt lögum ekki val um annað. Fulltrúunum var fjölgað úr 15 í 23 eða um rúm 53%. Ef við skoðum alþjóðlegan samanburð er nærtækast að líta til Norðurlandanna sem við berum okkur svo gjarnan saman við. Þar sitja hlutfallslega færri borgarfulltrúar til að mynda í höfuðborgunum og það sem meira er, störf almennra borgarfulltrúa þar eru hlutastörf. Í Reykjavík erum við þvert á móti með varaborgarfulltrúa á föstum launum til viðbótar við aðalfulltrúana, svo að 31 borgarfulltrúi í Reykjavík fær fasta launagreiðslu mánaðarlega. Við skerum okkur því mjög úr í þessum samanburði með okkar höfuðborg. En svo að það sé sagt bindum við, löggjafinn, hendur borgararnir í þessum efnum. Andstaðan við fjölgun borgarfulltrúa var þó ekki tilfinnanleg úr mörgum öðrum áttum en úr ranni Sjálfstæðisflokksins.

Aðalatriði málsins er þó að mati flutningsmanna sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga. Auðvitað ætti sveitarstjórnum að vera í sjálfsvald sett að ákveða fjölda aðalmanna í sveitarstjórn. Hverjir eru betur til þess fallnir að meta þessa þörf? Hæfilegur fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa hlýtur líka alltaf að vera háður huglægu mati, enda geta aðstæður sveitarfélaga verið misjafnar. Það er líka inntak 78. gr. stjórnarskrárinnar, sem segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Sjálfstjórn sveitarfélaga felst m.a. í kosningarrétti íbúa þeirra og í sjálfstæðum tekjustofnum þeirra, auk fjárveitingavalds. Þessa reglu er líka að finna í Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga sem Ísland hefur fullgilt.

Flutningsmenn telja að með þessu frumvarpi stöndum við vörð um sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga enda er hugmyndin að baki stjórnarskrárákvæðinu sú að tryggja rétt borgaranna til að stjórna sjálfir staðbundnum málefnum. Lagaákvæðið sem frumvarpið á að breyta takmarkar verulega heimild sveitarfélaga til að ráða fjölda aðalmanna í sveitarstjórn og er í andstöðu við þessa grundvallarhugmynd. Svo er auðvitað alger bónus að stjórnmálamenn geti ekki skýlt sér á bak við lög við fjölgun í stjórnmálastéttinni með tilheyrandi kostnaði.

Að lokum hlakka ég til að heyra gagnlegar ábendingar og athugasemdir við málið og legg til að málið gangi að lokinni 1. umræðu til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.