154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

bætur á rekstrarumhverfi bænda.

[15:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í gær hlustaði ég á hv. þingmann og fulltrúa í meiri hluta í fjárlaganefnd, Njál Trausta Friðbertsson, fullyrða í útvarpinu að stjórnarandstaðan væri bara ekki með mikla gagnrýni á fjárlögin sem slík heldur eingöngu á einstaka litla þætti, stóra myndin væri hreint ágæt. Ég get ekki talað fyrir alla stjórnarandstöðuna en okkur í Viðreisn þykir stóra myndin einmitt mjög slæm, eins og við höfum ítrekað bent á. Mér þykir leitt að fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd hafi ekki hlustað en þar liggur kannski einmitt vandinn, réttmæt gagnrýni á vaxandi og ómarkviss ríkisútgjöld er afgreidd eins og eitthvert píp.

Nú ætla ég ekki endilega að gera hæstv. matvælaráðherra ábyrgan fyrir þessum orðum en þau beina vissulega sjónum að stóra gallanum við fjárlagafrumvarpið; ríkisstjórnin er svo upptekinn af smáplástrum til skemmri tíma að hún vanrækir heildarmyndina. Í sama útvarpsviðtali nefndi hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson að von væri á tillögum á næstu dögum til að bregðast við erfiðri stöðu bænda. Við í Viðreisn erum sammála því að það þurfi að finna lausn, að það liggi á því að finna lausn á erfiðu rekstrarumhverfi bænda. Það þarf einfaldlega í þessu sal að finna leiðir til að styðja við bændur og fæðuöryggi í landinu. En það er ekki sama hvernig það er gert og ég vil því spyrja hæstv. matvælaráðherra: Hvers er að vænta í þessum tillögum? Er það svo að enn einn ganginn erum við að horfa á skammtímalausnir við langtímavanda? Erum við að horfa á plástra við blæðandi sári eða mun hæstv. matvælaráðherra reyna að sýna ríkisstjórninni gott fordæmi og leggja fram hugmyndir um heildstæða lausn á þeim vanda sem bændur búa nú við og hafa ítrekað bent á að geri starf þeirra og starfsskilyrði illbærileg til lengri tíma?