154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

bætur á rekstrarumhverfi bænda .

[15:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er gott að heyra að þar á bæ er alla vega, á sama tíma og gripið er til ráðstafana til að hjálpa bændum í þeim bráðavanda sem þeir búa við núna og er orðinn bráðavandi m.a. vegna þess að ekki hefur verið þrek til að fara í grunninn undanfarin ár, þá er á sama tíma og ætlunin er að fara það líka hugmyndin um að reyna að safna liði til að fara í þá endurskoðun og endurbætur á kerfinu sem nauðsynlegt er að gera.

Mig langar aðeins í seinni umferð til að velta því upp hvort það sé ekki á sama tíma algjört forgangsatriði að það séu ekki neytendur, heimilin í landinu, sem beri þungann af kostnaði við þessa aðstoð. Ég veit að það er verið að smíða þetta og eitthvað heyrist af því að þessi pakki, aðstoð við bændur, verði ekki tilbúinn þegar 2. umræða fjárlaga fer fram í næstu viku heldur verði beðið með það, (Forseti hringir.) sem sýnir kannski að þetta er ekki tilbúið. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því, í ljósi reynslunnar, að þarna verði heimilum landsins gert að bera hitann og þungann af þessum kostnaði frekar en að litið verði á milliliði og skoðað hvernig hægt er að gera þetta allt skilvirkara. (Forseti hringir.) Og ég vona að sú staðreynd að við erum að tala annars vegar um bráðavanda og hins vegar úrbætur til lengri tíma, (Forseti hringir.) að neytendur og heimilin í landinu bíði ekki þess sem gera skal einhvern tímann til lengri tíma.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á ræðutímann sem er aðeins ein mínúta í síðari fyrirspurn og síðara svari.)