154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

endurnýjun rekstrarleyfis Arctic Sea Farm .

[15:33]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er auðvitað rétt sem kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns að það er ákveðin áskorun sem atvinnugrein eins og sú sem hér er undir er í þegar stendur til og standa yfir breytingar á laga- og regluumhverfi. Það er hins vegar þannig að þegar Matvælastofnun metur hvort endurskoða skuli rekstrarleyfið þá ber stofnuninni að líta til gildandi laga þar sem segir:

„Við lok gildistíma rekstrarleyfis er heimilt, að framkominni umsókn, að úthluta eldissvæðum að nýju til hlutaðeigandi. Sé um endurúthlutun að ræða skal Matvælastofnun endurmeta hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru til rekstursins skv. 2. mgr.“

Þær kröfur sem settar eru fram þar eru að umsækjandinn skuli uppfylla kröfur sem gerðar eru um heilbrigði lagareldisdýra og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum og um velferð lagareldisdýra. Við matið ber Matvælastofnun að líta til reglugerðar og reglu og gildandi laga. Áður en Matvælastofnun auglýsti tillöguna lagði stofnunin mat á það hvort umsækjandinn uppfyllti kröfur framangreindra reglugerða.

Það er hins vegar þannig varðandi leyfið, eins og hv. þingmaður kemst að orði þegar hann spyr um það hvort ég telji að rétt sé að leyfið gildi lengur eða skemur., þá er það náttúrlega svo, eins og fram hefur komið, bæði í þingsal og frammi fyrir nefndum þingsins, að ég tel tímabært að endurskoða og endurmeta bæði laga- og reglugerðarumhverfi utan um þessa atvinnugrein og ég tel að það sé almennt mikill stuðningur við það í landinu. (Forseti hringir.) Það breytir því ekki að í gildi eru tiltekin lög og tilteknar reglur á meðan á þessari stefnumótun stendur (Forseti hringir.) en ég vænti þess að hv. þingmaður standi með mér og fleirum í því að bæta úr.