154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[15:59]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp í sérstakri umræðu, hér er um mikilvægt mál að ræða. Ég vil jafnframt benda virðulegum forseta á að ég botna ekkert í tveimur spurningum sem lagðar eru hér fram og beint til ráðherra í 2. og 3. tölulið. Þar er verið að vísa til reglugerðar Evrópuþingsins sem er bara ekki til staðar og líka verið að vitna til laga í 3. tölulið, um kostnað og bætur, sem eru heldur ekki til staðar. Mér finnst að svona plagg eigi ekki að sjást hér í umræðu hvað þetta varðar.

Riða kom fyrst fram í heiminum árið 1732 og var vitað að hún væri ólæknandi 1759. Á Íslandi hefur riðan verið í 130 ár, hún kom fyrst upp á Norðurlandi og hefur svo farið víða um landið.

Varðandi bæturnar sem fjallað er um í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er að mínu mati alveg skýrt að ríkissjóður greiðir þann kostnað sem er vegna einangrunar búfjárins, einnig efniskostnað vegna nauðsynlegrar hreinsunar og sótthreinsunar og kostnað vegna aflífunar, eyðingar hræja og notkunar tækja. Þetta er alveg skýrt og kemur fram í 17. gr. laganna. Svo kemur líka fram í 20. gr., eins og hér kom fram fyrr í máli málshefjanda, að ríkissjóður á að bæta verðgildi afurða og rekstrartap sem sannarlega leiðir af eyðingu dýranna. Það er alveg klárt mál að það er ríkissjóður sem á að greiða kostnaðinn ef riða kemur upp á bæjum í landinu.

Svo hins vegar þegar maður skoðar reglugerðina, sem er reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, þá virðist málsmeðferðin hjá stjórnsýslunni ekki vera nægilega góð. Ég skil vel að það sé þungt undir fæti þegar maður skoðar reglugerðina að sækja rétt sinn samkvæmt lögunum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þegar maður skoðar 17. og 20. gr. laganna er alveg skýrt hvað ríkið á að gera en það er ekki skýrt þegar maður skoðar reglugerðina um útrýmingu á riðu og bætur vegna niðurskurðar, (Forseti hringir.) lV. kafla um kostnað og bætur. Þetta ber ráðherranum að laga sem allra fyrst. Ég skora á bændur að gæta réttar síns. (Forseti hringir.) Einnig ætti að greiða vinnu og kostnað við að sækja þessar bætur. Ríkinu ber skylda til að greiða þá vinnu líka.