154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[16:01]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ef við horfum hundrað ár aftur í tímann og skoðum læknavísindin sem þá voru til þá voru tvær einfaldar lausnir við öllum sjúkdómum. Annars vegar var það að tappa af smá blóði og hins vegar, til að hreinsa eitthvað, var kveikt í, bara brennt til grunna. Sem betur fer hefur læknavísindunum tekist að þróast aðeins í rétta átt en þegar kemur að riðunni þá höfum við verið svolítið föst í gömlu aðferðunum. Við höfum verið föst í þeim gömlu aðferðum að skera niður allt og síðan að hreinsa og helst skipta um allt. Þetta er sem betur fer loksins að þróast. Við erum farin að uppgötva þegar kemur að riðunni að ákveðin gen eru kannski vörn gegn henni, við erum að sjá að það er hægt að fara aðrar leiðir en að skera niður allan bústofninn. En við þurfum líka að huga að því hvernig við tökum utan um þá bændur sem lenda í þessu. Ef við horfum aftur til okkar sjálfra og læknavísindanna okkar þá höfum við séð t.d. hvernig við höfum tekið utan um fyrirtæki og einstaklinga sem lentu í smitsjúkdómi sem hét Covid og við höfum nú talað ansi mikið um hérna inni, hvernig við hugsuðum um þau og hvernig við bjuggum til lausnir til að hjálpa fólki. Það þurfa að sjálfsögðu að vera nýjar leiðir og betur úthugsaðar og þær þurfa að vera þannig að fólk sé í raun að fá bætur, að það þurfi ekki endalaust að berjast fyrir þeim heldur fái bætur fyrir það sem það er að missa og fyrir þá vinnu sem það þarf að fara í við hreinsun og annað, þannig að við getum tryggt það að bændurnir komi út úr þessu óskaddaðir.