154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[16:15]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Niðurskurði á sauðfé vegna riðu hefur verið beitt af fullum þunga á Íslandi áratugum saman og þótt riðutilvikum hafi fækkað töluvert frá því er mest lét á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þá er það enn svo að árlega greinist riða hér á landi. Í dag teljast átta af 25 varnarhólfum til sýktra svæða. Riðan hefur þannig enn veruleg áhrif á afkomuöryggi íslenskra bænda. Það stendur upp á stjórnvöld og okkur hér á Alþingi að taka vel utan um bændur sem verða fyrir þessu áfalli. Það hefur ekki tekist að uppræta riðu þrátt fyrir íþyngjandi aðgerðir en nú eygja sauðfjárbændur von um langtímalausn, eins og hæstv. matvælaráðherra fór yfir. Árið 2022 fundust hér á landi í fyrsta sinn kindur með svokallaða ARR-arfgerð sem er verndandi fyrir riðu og hefur verið notuð erlendis með góðum árangri. Nú í nóvember voru loksins gerðar breytingar á riðureglugerðinni með það að augnamiði að gera það mögulegt að nýta þessa arfgerð í baráttunni við riðu. Það er gott fyrsta skref en frekari aðgerða er þörf. Á fjölmennum fundi bænda í Hrútafirði í vor kölluðu þeir eftir margvíslegum breytingum á reglugerð um riðu. Ef árangur á að verða af þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar þá þarf að leggjast í umfangsmiklar arfgerðargreiningar svo forða megi kindum með verndandi arfgerð frá niðurskurði. Mér heyrist á hæstv. matvælaráðherra að þetta sé nákvæmlega það sem stendur til og fagna því og hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum.