154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[16:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég fæ ekki betur séð en að reglugerð um útrýmingu riðu og bætur vegna niðurskurðar takmarki lagaákvæðið sem kveður á um bætur til bænda, en þar segir, með leyfi forseta, í 2. mgr. 20. gr.:

„Bætur ríkissjóðs svara til verðgildis afurða og rekstrartaps sem sannanlega leiðir af eyðingu dýranna.“

Í reglugerðinni segir hins vegar segir, með leyfi forseta, í 12. gr. IV. kafla:

„Bætur vegna niðurskurðar greiðast úr ríkissjóði. Bætur fyrir fullorðið fé vegna niðurskurðar skulu fara eftir fjártölu samkvæmt síðasta skattframtali …“

Það segir ekkert um skattframtalið í lögunum. Einnig segir í 13. gr., með leyfi forseta:

„Afurðatjónsbætur skulu miðast við meðalafurðir sauðfjár á lögbýlinu síðustu þrjú ár fyrir niðurskurð samkvæmt skattframtölum og innleggsseðlum.“

Það er skýrt að mínu mati að hér er reglugerðin að taka fram fyrir lögin, sem er ekki rétt og gæti jafnvel verið grundvöllur dómsmáls. Ég er ekki dómari hér en ég tala hér sem þingmaður og ég tel að þessi reglugerð sé ekki í samræmi við löggjöfina, svo það liggi skýrt fyrir. Það er ekki hægt að takmarka greiðslu samkvæmt lögum í reglugerð.

Núna hins vegar, þegar íslenskir bændur, bændastéttin er að riða til falls, er mikilvægt að við tökum höndum saman, tökum utan um stéttina vegna áfalla sem hún verður fyrir vegna riðu. Rannsóknir vegna arfgerðargreininga eru mikilvægar og gríðarlega mikilvægt að þeim verði hraðað og þær fái nægilegt fjármagn. Þetta er framtíðarmúsík en gæti orðið til þess að 130 ára þrautagöngu íslenskra bænda vegna riðu ljúki.

Ég vonast til þess og skora á hæstv. matvælaráðherra að tryggja nægilegt fé til slíkra rannsókna og að þeim verði hraðað eftir bestu getu. Þetta gætu orðið stórkostlegar rannsóknir, ef við náum að útrýma riðu í íslensku sauðfé endanlega eftir þá baráttu sem við höfum verið í á undanförnum árum. En það breytir því ekki að bændur eiga rétt á fullum bótum og þeir eiga líka rétt á bótum vegna vinnu og vinnunnar í kringum það að krefja íslenska ríkið um bætur, svo það liggi fyrir. Það er algerlega ómögulegt (Forseti hringir.) að íslenska ríkið og framkvæmdarvaldið sé að setja bændum skorður við að sækja bætur vegna riðu.