154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[16:20]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu og sömuleiðis hæstv. matvælaráðherra fyrir svörin. Ég tek undir með hæstv. matvælaráðherra hvað það varðar að við stöndum á stórkostlegum tímamótum í baráttunni gegn riðunni í dag en fram undan er gríðarlegt verkefni sömuleiðis; að útrýma þeim arfgerðum sem bera þau gen sem taka við riðunni, þ.e. sem eru með áhættuarfgerð gagnvart riðu. Við höfum nýverið fundið verndandi arfgerð, ARR-arfgerðina, og verkefnið er að dreifa henni þá vítt og breitt um landið en verkefnið er sömuleiðis að mörgu leyti áhættusamt því að það eru fáir einstaklingar sem bera þessa arfgerð.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að sömuleiðis eru aðrar arfgerðir, sem eru vissulega ekki viðurkenndar, sem eru mjög líklega verndandi og til þess þarf að horfa sömuleiðis því að verkefnið — jú, það getur tekið allt að tíu árum eða eitthvað svoleiðis að reyna að útrýma riðunni en við þurfum að horfa til þess að þeir bændur sem hafa þurft að skera niður núna þurfa að hafa forgang í því að kaupa til sín þá gripi sem bera þessa verndandi arfgerð. Þá þurfum við að athuga að samkvæmt ákveðinni verðkönnun sem gerð var í haust kostaði lambhrútur með ARR-genið um 100.000 kr og gimbur sem bar ARR-gen — það var engin gimbur til sölu vegna þess að menn sitja á þessu algerlega eins og eðlilegt er en mjög líklega kemur sú gimbur til með að kosta um 50.000. Við þurfum að grípa um þetta vegna þess að verkefnið er að útrýma riðunni á Íslandi í eitt skipti fyrir öll.