154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[16:29]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn málshefjanda og öðrum þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. En það er rétt í lok þessarar umræðu að taka það fram og að það komi fram á þessum vettvangi að það er ekki sjálfsagt að við séum stödd á þessum stað sem við erum stödd á. Það var fólk nefnilega sem hafði trú á því að lausnin væri til. Það voru bændur sem fóru af stað. Það var Karólína í Hvammshlíð, það voru bændur af Þernunesi, það var vísindafólk á Keldum, það voru bændur víðar um land, það var starfsfólk RML og fleiri og fleiri sem höfðu trú á því að lausnin væri þarna. Fyrir það að sú niðurstaða hafi fengist fram, fyrir úthald og þrek og bjartsýni þessa fólks, skulum við þakka. Þá er komið að stjórnvöldum að styðja við þetta frumkvæði, styðja við þetta framtak, kalla saman okkar bestu vísindamenn, búa til áætlun sem er raunhæf, fjármagna hana eins og hægt er. En um leið að ræða það og nefna hér og halda því til haga að þau sem framkvæma áætlunina eru bændurnir sjálfir. Það er algjör forsenda þess að það takist vel til að stjórnvöld, bændur og vísindasamfélagið snúi bökum saman og losni við riðu úr íslenskum sauðfjárbúskap. Það er hægt. Við erum með verkfærin fyrir framan okkur. Við erum með sameiginlegan skilning hér í þinginu. Ég þakka þeim þingmönnum sem halda mér við efnið, styðja meginmarkmiðin og geta sannarlega verið hér með íslenskum bændum í því að ná raunverulega sögulegu markmiði.