154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Stundum getur maður kannski sagt: Sem betur fer er reynsla af krísustjórnun. Það getur stundum komið sér vel. Ég held að sannarlega hafi það gerst núna að það var brugðist mjög hratt við og við búum auðvitað að reynslunni eftir Covid og erum að byggja dálítið á þeirri reynslu og þeim kerfum sem þar voru uppsett. En sannarlega held ég að við getum talað um að það eru öll að standa sig vel sem að þessu koma; almannavarnir, Grindavíkurbær og þeirra starfsfólk, og öll þau sem þar koma að. Þannig að það eru margir sem hafa þurft að leggja hönd á plóginn án þess nánast að hafa haft umhugsunarfrest í upphafi þessarar vár sem yfir landið hefur gengið og yfir Grindavík hefur gengið.

Það er alltaf gott að kunna vel til verka þegar krísa er fyrir höndum og við höfum búið að því núna. Þetta frumvarp er bara partur af því að reyna, eins og ég segi, að bregðast við bæði þeim sem höllum fæti standa og líka bara hinum almenna íbúa Grindavíkur. Það er einmitt eitt af því sem hér er undir, það er m.a. húsnæðisstuðningur og annað slíkt sem verður greitt. Það kemur t.d. ekki til skerðingar á bótum almannatrygginga, það er eitt af því sem var tekið fyrir og það er líka hluti af reynslu sem við höfum öðlast. Ég held því að við séum bara að reyna að taka almennilega utan um þetta verkefni og þar byggjum við auðvitað á góðri reynslu.