154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[16:45]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ítreka að ég er hjartanlega sammála öllu sem hér er lagt til, fullur sómi að, og fókusinn sem hefur náðst á þetta tiltekna verkefni er fyllilega í samræmi við tilefnið. Það er mjög erfitt fyrir venjulegt fólk að setja sig í þær aðstæður að vera skyndilega rekið út af heimili sínu og þurfa að finna sér nýtt heimili og vita ekki um afdrif aleigunnar eða íbúðarhúsnæðisins eða hvað verður í náinni framtíð. Hugur okkar er hjá öllum Grindvíkingum. Ég segi: Við skulum bara nota þetta sem áminningu um það að við erum góð í að leysa krísur. Það er nú kannski kjarninn í íslenska eðlinu að við erum samhuga og samstillt þegar á þarf að halda. Og þegar þetta verkefni verður komið fyrir vind, getum við sagt, þá vil ég ítreka beiðni mína til hv. þingmanns og hennar meiri hluta, stjórnarliða, að við viðurkennum krísurnar sem eru t.d. núna fram undan í þeirri grunnstétt sem er bændastéttin. Við vorum að tala um riðu áðan en það er allt að riða til falls hjá mjólkurbændum sem fá 175 kall fyrir mjólkurlítrann sinn á meðan kranavatn á flöskum kostar út úr búð 199 kall. Það segir allt sem segja þarf. Síðan er auðvitað viðvarandi krísa, sem er sú alvarlegasta til lengri tíma litið, sem lýtur að eldri borgurum, öryrkjum og fátæklingum þessa ríka lands. Ég spyr hv. þingmann hvort ekki megi góðs vænta af krísustjórnunum á þessum vettvangi líka.