154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það er sannarlega erfitt að setja sig í spor þessa fólks og ég vona svo sannarlega að ekkert okkar þurfi nokkurn tímann að gera það. Þetta er eitthvað sem ég trúi að mjög margir hafi hugsað og velt fyrir sér: Hvað ef maður lent í slíku ástandi eins og þetta er? Maður getur ekkert hugsað þá hugsun til enda. Ég hugsa ekki síst sem kennari um börnin, unga fólkið, sem eru rifin upp með rótum úr sínu daglega umhverfi, það er reynt að ná utan um þau að einhverju leyti í einhverjum safnskóla en svo, eðli máls samkvæmt í svona hamförum, tvístrast þau út um allt.

Þetta er svo snúið að það er bara þyngra en tárum taki að þurfa að horfast í augu við að þetta er eitthvað sem fólk stendur virkilega frammi fyrir og reynir mjög mikið á. Það sem kannski þarf að huga að til lengri tíma og við höfum ákveðið að taka fyrir í velferðarnefnd, svo ég segi það líka hér, er hvernig framhaldsstuðningi verði háttað varðandi andlegan stuðning við fólk og félagslegan stuðning í framhaldinu, af því að oft kemur slíkt ekki fram fyrr en talsvert seinna. Það er eitthvað sem við þurfum að vera mjög vel vakandi yfir, að það sé búið að hugsa um hvernig við ætlum að gera það.

Það er líka eitt af því sem er svo dásamlegt við okkar yndislega land hversu samstillt og samhljóða við erum þegar eitthvað bjátar á. Það hefur einhvern veginn átt við í svo ótal mörgum tilfellum í svo mörg ár þegar við höfum verið að glíma við eitt og annað, hvort sem það eru safnanir eða áföll. Því miður höfum við kannski haft of mörg áföll til að glíma við en það hefur samt einhvern veginn alltaf verið þannig að þá stendur fólk saman og leggur öll sín lóð á vogarskálarnar til þess að sinna því og hjálpa til við það verkefni. Við hugsum að sjálfsögðu þannig líka í ríkisstjórninni gagnvart öðrum þegnum þessa lands.