154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[16:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frumvarpi heitt og innilega og styð það heils hugar. Ég verð bara að segja alveg eins og er að aldrei hefði mér dottið í hug þegar ég bjó í Grindavík, þann tíma sem ég var þar, þessi nokkur ár í heildina, kannski í um tíu ár, að svona hamfarir gætu gengið yfir þó að jarðskjálftar hafi verið á þeim tíma þegar ég var þarna. Ég átta mig á því að þessar tvær íbúðir sem ég keypti, fyrsta íbúðin sem ég keypti í Grindavík og síðan seinni íbúðin líka, eru báðar á þessu aðalsprungusvæði. Eftir á að hyggja þá hafði maður sem betur fer bara ekki hugmynd um það og hvort manni hefði dottið í hug að fólk ætti eftir að þurfa að flýja Grindavík vegna hamfara — það hefði aldrei hvarflað að mér. En þetta segir okkur kannski ákveðna sögu og þá sérstaklega í því samhengi hvort við þurfum ekki að kortleggja hvar við erum að byggja, að við skyldum hafa byggt þarna á einhverri sprungu sem virðist einhvern veginn hafa verið til staðar. Ég held að það hafi allir áttað sig á því að hún var þarna en enginn var að pæla í því hvað gæti skeð. Samkvæmt því sem ég sá um daginn þá var verið að kortleggja sprungusvæðið og það virðist vera bara hérna innan höfuðborgarsvæðisins, hérna uppi við Elliðavatn og á fleiri stöðum, sem er verið að byggja á svona sprungusvæði. Það þurfum við þá líka að fara að endurskoða og taka á vegna þess að það virðist vera að það sé kominn einhver hamfaratími á Reykjanesinu en við skulum bara vona að það verði sem minnst.

En snúum okkur þá að þessu nefndaráliti og þessu frumvarpi.

Í velferðarnefnd kom fram, og ég var svolítið hugsi yfir því, að Samtök atvinnulífsins lýstu yfir áhyggjum sínum af 6% tryggingagjaldi sem þeir reiknuðu með að væri, ef það varðaði alla launþega í Grindavík, einhver rúmur milljarður. Ég set svolítið spurningarmerki við það vegna þess að ef maður horfir á hversu vel hefur gengið í Grindavík með fiskvinnsluna og annað — við sjáum að það er fyrirtæki núna sem á stóran hluta þarna, útvegsfyrirtæki í Grindavík, sem stefnir nú í held ég bara á fyrstu níu mánuðum ársins í nærri 10 milljarða, 8,6 eða 9 milljarða hagnað, þannig að varla eru þessir aðilar að hafa áhyggjur af einhverju smá tryggingagjaldi í tvo, þrjá mánuði eða lengur og ættu ekki einu sinni að nefna það á nafn vegna þess að þeir ættu að geta staðið undir því.

Ég hef meiri áhyggjur af minni fyrirtækjunum vegna þess að þar sem eru kannski einyrkjar og aðrir, þeir geta lent í vandræðum og okkur ber að sjá til að hjálpa þeim á allan þann hátt sem við getum. Það kom t.d. fram hjá ASÍ fyrir nefndinni, og ég er eiginlega svolítið sammála því, að það er skrýtin lenska hjá okkur að núna erum við t.d. að tryggja laun upp á 633.000 kr. á mánuði og ofan á það fer auðvitað lífeyrissjóður og þá fer þetta í 710.000 eða eitthvað í kringum það, ef ég man rétt. En þetta eru tölur frá 2018. Það er einhver lenska hjá ríkisstjórninni, a.m.k. þessari ríkisstjórn og frá því ég kom á þing, að setja inn einhverjar upphæðir og gleyma þeim svo, uppfæra þær ekki. Þetta er mjög algengt í almannatryggingakerfinu og virðist nú vera komið yfir í launakerfið líka. Þetta er ekki gott vegna þess að það segir sig sjálft að á Íslandi, þar sem verðbólga getur farið af stað snöggt og hlutir breyst hratt, þá er ekki gott að vera með fimm ára gamalt plan um greiðslur. En þetta skiptir samt máli vegna þess að við vitum t.d. að ef ekki væri verið að gera þetta þá stefndi í það að fólk þyrfti að fara á atvinnuleysisbætur og það eru ekki nema einhver 70% sem það skilar og þar er hámarkið 525.000. Þannig að þetta er gott mál og bara frábært að við skulum hreinlega vera að koma þessu á og líka að við skulum reyna að taka tillit til þess, og við verðum að átta okkur á því, að fólk getur hafa verið í orlofi eða einhverra hluta vegna verið frá vinnu á þessu tímabili sem er undir — að þá sé hægt að taka besta árið. Við megum heldur ekki gleyma því að yfirvinna getur verið meiri á ákveðnu tímabili en öðru og eftir því sem mér skilst þá er þetta aðalvinnslutíminn þannig að það hefði mátt búast við töluverðri yfirvinnu, þannig að það verði tekið til þess. Það er mjög flott. Og líka það að þetta gildir einnig fyrir þá sem eru undir 18 ára og yfir sjötugu. Þarna er verið að reyna að ná utan um og gera hlutina virkilega vel. Svo verðum við að muna að ríkisendurskoðandi benti á að það yrði líka að fylgjast vel með og að það væri mikið eftirlit með því að þetta kerfi allt virkaði og það skilaði sér til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda og að aðrir geti ekki hagnast á þessu kerfi sem við erum að byggja upp.

Það segir sig sjálft að það er auðvitað frábært að við erum núna að fara vinna í húsnæðisstuðningnum í velferðarnefnd vegna þess að eftir því sem sagt er þá er leiguverð á 100 m² íbúð 400.00–500.000 á mánuði, sem er auðvitað gífurleg upphæð. Þess vegna skiptir ofboðslega miklu máli fyrir þessa einstaklinga, sem eru núna sem betur fer búnir fá frystingu á sínum lánum, að fá stuðning til að standa undir þessari stökkbreyttu leigu sem er hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég vona auðvitað heitt og innilega, eins og við sýnum í velferðarnefnd og mynum vonandi líka sýna bæði í þessu máli og húsnæðismálunum, að við getum unnið hratt og vel og að við getum gert þetta. Það væri óskandi að við tækjum fleiri mál og sýndum það að við erum tilbúin að ekki bara að byggja varnargarða í kringum Orkuveituna og í Svartsengi og fólkið í Grindavík heldur að við munum líka byggja varnargarð um viðkvæmasta fólkið. Þar hef ég mestar áhyggjur af fötluðu fólki og eldra fólki og líka erlendum aðilum. Þess vegna verður að tryggja að það sé einhver ákveðin miðstöð þar sem fólk getur komið. Núna eru þau búin að tala um að þetta mál sem hér er undir er undir Vinnumálastofnun. Síðan kemur húsnæðisstuðningur, það er undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og það er jú talað um að bæjarstjórn Grindavíkur muni vera með upplýsingaveitu í Tollhúsinu hérna rétt hjá. En síðan fer nú flest fram rafrænt, í gegnum netið. Það þarf einhverja síðu sem bendir fólki á hvert það á að leita.

Síðan þarf líka að aðstoða það fólk sem hefur ekki aðstöðu til þess að fara inn í rafræna kerfið. Við vitum að það eru sérstaklega eldri borgarar og fatlað fólk og sumir hafa ekki og fá ekki einu sinni rafræn skilríki, sem er eitt af þeim vandamálum sem er verið að glíma við. Mér er óskiljanlegt að enn skuli vera sú staða uppi að ákveðnir aðilar fái ekki rafræn skilríki til að geta nýtt sér þá þjónustu sem þarf rafræn skilríki til að nota. Þetta er eitthvað sem verður að leysa. Ég vona að það verði einhvers staðar sett upp síða þannig að viðkomandi geti fengið skýr skilaboð: Grindvíkingar sem þurfa á hjálp að halda. Þið getið farið á þennan stað og fengið allar upplýsingar á sama stað. Að það þurfi ekki að fara langar leiðir; fyrst til fá launin og síðan út af húsnæðisstuðningnum, heldur geti þeir fengið þessa hjálp á einum og sama staðnum. Það held ég að sé bara alveg nauðsynlegt vegna þess að við vitum að það er ekkert auðvelt fyrir fatlað fólk að ætla sér t.d. að koma hingað niður í miðbæ og fá stæði til að komast í gamla Tollhúsið. Það er ekki þægilegasta leiðin til að hafa svona hluti. Það þarf að vera mjög gott aðgengi og auðvelt að komast að fyrir bæði fatlað fólk og eldra fólk og ég vona svo heitt og innilega að við finnum lausn á því. Þá verður vonandi hægt að hjálpa öllum sem á þurfa halda. En sem sagt: Þetta verður bara hið besta mál.