154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[17:00]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Álagið á íbúum Grindavíkur er mikið þessa dagana. Fólk hefur verið neytt til að yfirgefa heimili sín og á þessari stundu liggur það ekki fyrir hvort eða hvenær íbúar fá að fara aftur til baka, slík er óvissan í þeim atburði sem nú stendur yfir. Þrátt fyrir að hægst hafi á þeim hræringum sem riðið hafa yfir bæinn þá liggur það ljóst fyrir að skaðinn er nú þegar orðinn mjög mikill hjá sveitarfélaginu, fyrirtækjunum en ekki síst íbúunum sjálfum. Óvissan er því mikil og nauðsynlegt að hlúa eins vel að íbúum og kostur er. Að eyða óvissu og skapa öryggi er mikilvægasta verkefnið þessa dagana og ég vil fá að lýsa ánægju minni með það starf sem unnið hefur verið hingað til við að takast á við þetta risavaxna verkefni. Þar á ég við alla þá sem lagt hafa lóð á vogarskálarnar til að gera líf íbúa Grindavíkur sem bærilegast. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með því fumleysi sem viðbragðsaðilar hafa sýnt við að tryggja öryggi íbúa og ég dáist að þeim mikla vilja sem landsmenn hafa sýnt til að aðstoða Grindvíkinga á öllum sviðum.

Hjálpsemi landsmanna dugar hins vegar ekki til að tryggja stöðu Grindvíkinga. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram og er það væntanlega eitt af mörgum. Það þarf að tryggja íbúum tekjur og það þarf að tryggja íbúum húsnæðisöryggi, a.m.k. um einhvern tíma. Við megum því eiga von á að starfsemi þingsins næstu daga muni ráðast talsvert af þeirri stöðu sem uppi er.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp sem við ræðum hér er því liður í að tryggja íbúum framfærslu og ég vil fá að lýsa ánægju minni með það hversu hratt það er að ganga í gegnum þingið. Ég vil einnig lýsa yfir stuðningi Viðreisnar við þetta mál. Það bárust ekki margar umsagnir um þetta frumvarp en þeir umsagnaraðilar sem sendu inn umsögn, þ.e. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið, vöktu athygli á ákveðnum atriðum sem mér finnst mikilvægt að nefna hér.

Áður en ég geri það langar mig þó að þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir hans samskipti við nefndina í aðdraganda þess að málið var lagt fram. Við fengum hringingu frá ráðherra þar sem hann fór yfir málið og bauð okkur að tjá okkur um það og mér finnst virðingarvert að hafa haft möguleika á slíkri aðkomu áður en málið kom til nefndarinnar.

Eins og áður sagði sendi Alþýðusambandið inn umsögn og heimsótti okkur líka í nefndinni. Alþýðusambandið styður að sjálfsögðu þetta mál en vakti engu að síður athygli á vanda einstaklinga sem búa í Grindavík en starfa annars staðar. Eins og segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Um er að ræða hóp sem gæti talið 150-200 einstaklinga enda er suðvesturhornið og ekki síst Reykjanesið allt eitt atvinnusvæði. Bæði geta verið fyrir hendi beinar hindranir svo sem fjarlægð frá vinnu vegna tímabundins húsnæðis og/eða óbeinar hindranir svo sem skortur á dagvistun í ljósi umrótsins sem gerir einstaklingum erfitt um vik að sinna starfi.“

Maður veltir fyrir sér einstaklingi sem starfar t.d. á Keflavíkurflugvelli en fékk ekki húsnæði á Suðurnesjum og varð því að leita eftir húsnæði langt frá vinnustaðnum, tökum sem dæmi hugsanlega í sumarhúsi austur í Biskupstungum eða einhvers staðar. Það er erfitt fyrir slíkan einstakling að keyra í tvo tíma í vinnu og tvo tíma heim úr vinnu og getur auðvitað orsakað það að viðkomandi getur hreinlega ekki stundað sína vinnu, en samkvæmt þessu á slíkur einstaklingur ekki rétt á að fá launatrygginguna sem verið er að boða í þessu frumvarpi. Eins og Alþýðusambandið nefnir er kannski ekki til staðar dagvistun á þeim stað sem viðkomandi dvelur þannig að þetta getur verið snúið.

Mér finnst bara rétt að vekja athygli á þessu. Mér fannst ég einhvern veginn þurfa að nefna oft í velferðarnefndinni að við viljum ekki að fólk sé að falla á milli skips og bryggju og við þurfum að tryggja fólki á einhvern hátt afkomuöryggi. Það er bara algjörlega nauðsynlegt.

Samtök atvinnulífsins taka hins vegar annan pól í hæðina og eru að velta fyrir sér launatengdum gjöldum sem fylgja því auðvitað að greiða út laun. Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til þess að það þarf að borga launatengd gjöld. Jú, það er tekið tillit til lífeyrissjóðsgreiðslna en það er ekki tekið tillit til tryggingagjaldsins og það er heldur ekki tekið tillit til orlofsgreiðslna sem geta annaðhvort verið greiddar inn á bankareikninga eða safnað upp. Samtök atvinnulífsins meta að það sé um 22% kostnaður sem fylgir þessu og benda á að ef verið er að borga hámarksupphæðina upp á 633.000 bætist við þarna 140.000 á mánuði í orlof og launatengd gjöld fyrir einstakling sem nýtur þess réttar að fá 633.000. Vissulega getum við bent á fyrirtæki sem standa vel og geta greitt þetta en önnur fyrirtæki geta það hreinlega ekki. Það er búið að skella í lás, þau hafa enga innkomu, eru hugsanlega í fjárfestingum og ráða illa við þetta. Þá er spurningin: Náum við því markmiði frumvarpsins að viðhalda ráðningarsambandi launafólks í Grindavík, sem er svo mikilvægt á þessum tímapunkti? Mér finnst bara rétt að benda á þetta.

Mig langar líka að nefna, af því að hér hefur verið nefnt að ríkisendurskoðandi mætti fyrir nefndina og nefndi eitt og annað sem er athyglisvert, að í frumvarpinu er verið að gera ráð fyrir því að þeir sem þiggi greiðslur til að borga laun og viðhalda ráðningarsambandinu hafi enga heimild þá til að greiða sér arð á þessum tímapunkti eða þetta árið. Þá veltir maður fyrir sér því sem ríkisendurskoðandi benti einmitt á, að það eru ýmsar leiðir til þess að ná fjármunum út úr fyrirtækjum án þess að það sé endilega verið að greiða arð. Við þekkjum það mörg og það er t.d. hægt að lækka hlutafé, lækka hlutafé í fyrirtækjum sem færist þá sem fjármunir til þeirra sem eiga fyrirtækið alveg eins og arður til eigendanna, þannig að þetta er ekki alveg skothelt. Þrátt fyrir að það sé búið að samþykkja að ekki sé verið að greiða út arð þá er hægt að ná fjármunum út úr fyrirtækjum með öðrum hætti.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að segja mikið meira um þetta. Ég er auðvitað bara ánægður með að verið sé að tryggja afkomu Grindvíkinga sem hafa upplifað einhverjar mestu hörmungar í sínu lífi; að tapa heimili sínu, tapa örygginu sem það hafði upplifað kannski í áratugi, börnin geta ekki notið skólavistar á heimaslóð eða félagsskapar við félaga sína eða notið tómstunda eða íþrótta á sínum heimavelli. Það skiptir okkur miklu máli að verið sé að gera þetta með þessum hætti og ég lýsi því enn og aftur yfir að Viðreisn mun styðja þetta mál allt til enda.