154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[17:15]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni fyrir flutning nefndarálits velferðarnefndar um málið hér við 2. umræðu og nefndarmönnum og öðrum þingmönnum fyrir innleggið hér. Ég styð þetta mál og eftir að hafa tekið þátt í umfjöllun velferðarnefndar tel ég máli vandað og að sett markmið muni nást, markmið um að tryggja stuðning til greiðslu launa til starfsfólks á almennum vinnumarkaði, en fyrir liggur að ríki og Grindavíkurbær munu áfram greiða starfsfólki sínu í Grindavík laun.

Frumvarpið er hluti af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við þessari óvissu sem ríkir í kjölfar jarðhræringa og í ljósi þess ástands sem jarðhræringarnar hafa skapað í Grindavíkurbæ. Ég kem hér fyrst og fremst til að ítreka að ég tek undir það mat velferðarnefndar að frumvarpið feli í sér mikilvæg skref til að tryggja launagreiðslur til þeirra einstaklinga sem nú búa við mikla óvissu. Jafnframt tek ég undir mikilvægi þess að stutt sé við ráðningarsamband atvinnurekenda og starfsfólks og því verði viðhaldið meðan þessi mikla óvissa ríkir.

Ég vil leggja áherslu á það að við hér á Alþingi vinnum hratt og vel að þeim verkefnum sem við getum farið í til að draga úr þeirri óvissu sem íbúar Grindavíkur standa frammi fyrir en á sama tíma þurfum við auðvitað að gefa okkur tíma til þess að rýna málin og ég tel að það hafi tekist vel í vinnslu þessa máls. Ég vil samt sem áður benda á það, eins og fleiri hafa gert hér, að framkvæmdaraðilar, sem í þessu tilfelli er Vinnumálastofnun, þurfa að halda vel utan um framkvæmdina og greina það sem upp kemur þannig að hvort sem þarf að framlengja þetta úrræði síðar eða fara í sambærileg úrræði þá verði til góðar upplýsingar um það sem vel gengur og það sem hugsanlega vantar upp á. Þá þurfa stjórnvöld auðvitað áfram að fylgjast náið með framvindu mála í Grindavík með aðstoð náttúrufræðinga en líka og ekki síður með áhrifum atburðanna á fólk.

Það er mikilvægt að við náum að afgreiða þetta tiltekna mál um launagreiðslur í dag og á morgun, og raunar byrjaði það nú í dag, tökum við til við vinnslu frumvarps um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavík, en það frumvarp var lagt fram hér á Alþingi í dag og við tókum fyrstu umfjöllun um það í velferðarnefnd í morgun.

Virðulegi forseti. Hugur minn er hjá Grindvíkingum. Það er mikilvægt að þeir fái svigrúm til að vinna sig í gegnum áfallið og óvissuna sem þeir standa frammi fyrir. Til að gera það mögulegt þurfum við hér á Alþingi að gera okkar til þess að skapa festu varðandi þá þætti sem við getum haft áhrif á með lagasetningu og þetta frumvarp er liður í þeim viðbrögðum.