154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langaði aðeins að tala um forvarnir, í rauninni tengt fjárlagavinnunni sem við erum að vesenast í núna. Enn og aftur erum við að sjá einhvers konar bitlingafjárútlát fjárlaganefndar til hinna ýmsu félagasamtaka, mjög mikilvægra lífsbjargandi verkefna vissulega en einhverra hluta vegna þarf Alþingi að hoppa inn í einhvern veginn og grípa í taumana, af því að ár eftir ár eftir ár hafa ráðuneytin og ríkisstjórnin ekki hlustað á ábendingar Alþingis, samþykkt Alþingis um að taka á móti þessari þjónustu og gera samninga um þessa þjónustu, meta þjónustuþörfina sem er á þessum sviðum vegna hinna ýmsu heilbrigðismála, og varpað ábyrgðinni aftur og aftur á þingið. Þetta er orðið rosalega óþolandi því að þetta endurspeglar í rauninni þá skoðun ráðuneytanna að ef þau útvega ekki samninga fyrir hin ýmsu fínu félagasamtök þá reddi Alþingi aukapening. Í þessu æðislega verðbólguástandi þar sem á að halda að sér höndum í ríkisútgjöldum og vera með aðhald og ýmislegt svoleiðis þá forgangsraða ráðuneytin í allt annað og skilja þetta eftir af því að þau vita að Alþingi kemur síðan inn með aukapening fyrir þetta — og kallar það samt aðhald, sem er rosalega skrýtið. Þessi þjónusta er gríðarlega mikilvæg og það er gríðarlega mikilvægt að við vitum umfangið og vitum markmiðin og árangurinn sem næst af því að sinna þessari þjónustu, þessum forvörnum, þessum lífsbjargandi úrræðum sem þessi félagasamtök — ég var Pieta í morgun og það var mjög áhugavert að heyra beiðni þeirra (Forseti hringir.) þar sem þau eru að fá tilvísanir (Forseti hringir.) frá aðilum í opinbera heilbrigðiskerfinu til sín en samt erum við í þessu skrýtna (Forseti hringir.) fyrirkomulagi þar sem Alþingi þarf einhvern veginn að fjármagna það en ekki ríkisstjórnin.