154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að tala um kynjajafnréttismál sem er um leið risastórt efnahagsmál. Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, birti í dag niðurstöður sem sýna fram á það hvernig konur bera miklu þyngri hluta af byrðinni þegar kemur að því að sjá um börn og heimili og verja þar með minni tíma á vinnumarkaði, eru líklegri til að vera í hlutastarfi, eiga minna í lífeyrissjóði og eru þannig í verri fjárhagslegri stöðu í gegnum ævina. Þetta er risastórt efnahagslegt mál sem við þurfum að taka mið af og ræða.

Það vill líka svo til að í dag er tveggja ára afmæli annarrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og ég vil nú nota tækifærið og óska henni til hamingju með það og okkur öllum. Hæstv. forsætisráðherra nefndi það í tengslum við kvennaverkfall hér í október að það væri markmiðið að ná fullu jafnrétti eigi síðar en árið 2030 og undir það hljótum við hér á Alþingi að taka og vinna að.

Á fyrsta kjörtímabili þessarar ríkisstjórnarinnar var farið í gríðarlega mikilvægar breytingar á fæðingarorlofinu þar sem við héldum í það að halda þannig skiptingu að karlar og konur taki sem jafnast fæðingarorlof. Þetta er gríðarlega mikilvægt kynjapólitískt mál og við eigum að halda áfram að vinna á slíkan hátt. En það skiptir einnig gríðarlega miklu máli að við brúum umönnunarbilið. Þar hljótum við að horfa til sveitarfélaganna og þeirra ábyrgðar og þetta hlýtur að verða mál sem við öll viljum taka undir og lyfta í komandi kjarasamningum, konum og um leið samfélaginu öllu til góða.