154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Við vitum það öll að það er stærsta úrlausnarefni samtímans að ná niður verðbólgu og vöxtum og við vitum líka að ríkisfjármálin þurfa að styðja við Seðlabankann í því verkefni. Þetta er auðvitað vandasamt og það er morgunljóst að flokkarnir hér á þingi hafa ekki allir sömu skoðun á því hvernig best er að bera sig að. Sumir stjórnarþingmenn hafa á liðnum dögum í fjölmiðlum talað svolítið á þann veg að stjórnarandstaðan hafi það eitt til málanna að leggja að hækka skatta. Þetta kemur auðvitað úr hörðustu átt því að ríkisstjórnin er nýbúin að leggja á einn skatt og er auk þess að fara að hækka skatta á fyrirtæki nú um áramótin yfir alla línuna. Hitt má hins vegar til sanns vegar færa að hluti stjórnarandstöðunnar er að jafnaði forritaður þannig.

Það er einn grundvallarmunur á hlutverki stjórnarandstöðunnar og stjórnarmeirihlutans og hann er sá að ríkisstjórnarflokkarnir velja sér að vinna saman og þeir leggja saman fram fjárlagafrumvarp þar sem helstu aðgerðir gegn verðbólgu og séríslensku ofurvöxtunum eiga að birtast okkur. Stjórnarandstöðuflokkarnir nálgast hins vegar verkefnið hver með sínum áherslum. Að mínu mati kemur ekki til greina að sá hópur sem nú ber þyngstar byrðar vegna óstöðugleikans sem rammaður er inn af síflöktandi gjaldmiðli og útgjaldagleði stjórnarflokkanna verði látinn greiða fyrir stjórnleysið með hærri sköttum sem bætast ofan á ofurvextina og verðbólguna. Millistéttin og þeir sem lægstar hafa tekjurnar eiga ekki að fjármagna það úrræðaleysi sem birtist okkur svo skýrt núna við fjárlagagerðina.

Við megum heldur ekki falla í þá gryfju að halda að vandinn verði leystur með því að herða skrúfurnar enn frekar á fjölskyldur landsins, á venjulegt fólk sem sýpur nú seyðið af því enn eina ferðina að innbyggður kerfisvandi setur bókhaldið í uppnám. Eða trúir því einhver maður að íslenska ríkið sé svo vel rekið að þar megi ekki spara umtalsverðar fjárhæðir með markvissri hagræðingu? Fyrsta viðbragð má ekki að vera alltaf að hækka skatta því það er fátt varanlegra en skattahækkanir, jafnvel þótt þær séu sagðar tímabundnar.