154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórnin ætlar að kasta 5.000 heimilum út úr vaxtabótakerfinu og lækka stuðning við skuldsett heimili um 700 millj. kr. milli ára. Ég ætla að segja þetta aftur af því að þetta skiptir máli og af því að ég vil að allur þingheimur viti þetta og hafi þetta í huga þegar fjárlögin verða afgreidd hérna í desember: Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að lækka stuðning við skuldsett heimili, sérstaklega heimili með lágar tekjur og þunga greiðslubyrði, um 700 millj. kr. milli ára. Vextir af húsnæðislánum fara upp, greiðslubyrði heimila fer upp, upp, upp, en stuðningur ríkisins við þessi heimili fer niður, niður, niður. Fleiri og fleiri heimili í basli, færri og færri heimili sem fá stuðning. Þetta er leið ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar geta drekkt okkur í alls konar orðasalati og frösum og glærusýningum en það breytir ekki því að þetta er sú stefna sem hér er rekin. Ríkisstjórnarflokkarnir finna nefnilega alltaf leið til að demba aðhaldinu í ríkisfjármálum á lágtekju- og millitekjuheimilin í landinu en hlífa þeim efnamestu. Í síðustu fjárlögum var þetta gert með því að hækka flöt krónutölugjöld um 7,7%; hækkun sem kom harðast niður á efnaminni heimilum og lak beint út í verðlag, lak beint út í verðtryggð lán heimilanna eins og gengur, en nú er farin sú leið að veikja húsnæðisstuðning, þrengja enn frekar að heimilum sem eru með þunga greiðslubyrði, sömu heimilum og eru nú þegar að sligast undan efnahagsóstjórn þessarar sömu ríkisstjórnar.

Virðulegi forseti. Það eru nokkrar vikur eftir af haustþingi og við í Samfylkingunni munum gera okkar allra besta til að reka ríkisstjórnina til baka með þessa glórulausu stefnu.