154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP28, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

[14:58]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. 28. aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna verður sett í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þann 30. nóvember næstkomandi og stendur í tvær vikur eða til 12. desember. Yfir 80.000 manns eru skráðir til leiks, þar af um 1.000 blaða- og fréttamenn svo að gera má ráð fyrir að talsvert verði fjallað um fundinn í fjölmiðlum.

Stærsta mál þingsins í ár er fyrsta hnattræna stöðutakan þar sem lagt verður mat á árangur ríkja. Samkvæmt Parísarsamningnum skal á fimm ára fresti leggja mat á það hvernig ríkjum hefur gengið að vinna að loftslagsmarkmiðum sínum. Í ár er lokahnykkur fyrstu stöðutökunnar en undanfarin tvö ár hefur farið fram mikil undirbúningsvinna sem m.a. hefur falist í ítarlegri upplýsingasöfnun. Það er ljóst að ef ná á markmiðum Parísarsamningsins um að hitastig jarðar hækki ekki meira en 1,5°C frá iðnvæðingu þarf að herða verulega á aðgerðum. Auk þess sem horft er til markmiða um samdrátt í losun er horft á aðlögun og framkvæmdarmáta aðgerða. Hnattræna stöðutakan er lykilatriði í umræðunni um hert markmið ríkja og væntingar standa til að niðurstöður fundarins verði m.a. settar fram með leiðbeiningum til ríkja þegar kemur að því að senda inn uppfærð landsákvörðuð markmið sem verður næst árið 2025. Það er hins vegar ljóst að samningamenn eiga mikla vinnu fyrir höndum að ná saman um ákvörðun þar sem enn eru mörg og ólík sjónarmið uppi um það hver skilaboðin eiga að vera.

Annað stórt mál sem mun væntanlega fá talsverða athygli er umfjöllun um loftslagshamfarasjóðinn, en á síðasta ári var tekin ákvörðun um að hann skyldi stofnaður. Jafnframt var þá tekin ákvörðun um að setja á laggirnar sérstaka nefnd sem falið var að undirbúa tæknileg atriði varðandi störf sjóðsins með það að markmiði að þær tillögur yrðu lagðar fyrir fundinn í ár. Tillögur nefndarinnar fela m.a. í sér fyrirkomulag fjármögnunar og skilyrði til úthlutunar. Tillögurnar gera ráð fyrir að Alþjóðabankinn visti sjóðinn fyrstu árin. Í öllum undirbúningi hefur verið lögð áhersla á að fá fjármuni víðar að en frá þjóðríkjum, svo sem frá alþjóðlegum fjármálastofnunum og einkaaðilum. Ekki liggur endanlega fyrir hvernig fjármögnun sjóðsins verður útfærð og eru ríki komin misjafnlega langt varðandi ákvörðun þar um þó að einhver ríki hafi gefið í skyn að þau muni tilkynna um framlög á þessu þingi. Við erum að skoða það með nágrannaþjóðum okkar hvernig við gætum komið að þeim málum en ekkert liggur enn fyrir um það, en við munum að sjálfsögðu skoða það af mikilli alvöru hvort og þá hvernig aðkoma Íslands verði best útfærð.

Af öðrum stórum málum má nefna vinnustraum um aðgerðir til samdráttar í losun þar sem orkuskipti eru áherslumál í fyrsta fasa, vinnustraum um hnattræna markmiðið um aðlögun að loftslagsbreytingum og umræður um nýtt sameiginlegt tölulegt markmið vegna fjármögnun loftslagsaðgerða.

Við munum einnig fylgjast vel með umræðu um 6. gr. Parísarsamningsins sem fjallar um markaði með kolefniseiningar, en það er málefni sem hefur fengið talsverða umfjöllun hér á landi og margir hafa sýnt því mikinn áhuga. Reyndar er það meira en áhugi, við erum að sjá að íslensk fyrirtæki eru farin að hasla sér völl á þessu sviði og væri mjög æskilegt ef hv. þingnefndir sem fara með þessi mál myndu fá kynningu á því vegna þess að það er ótrúlega margt að gerast á þessu sviði hér á landi. Þetta er ekki atvinnugreinar sem eru litlar í neinni merkingu þess orðs. Þróunin hefur verið mjög hröð þannig að hér er ekki um að ræða einhverja hluti sem eru að fara að gerast, við erum að tala um að nú þegar er mikið að gerast á þessu sviði.

Einnig fylgjumst við vel með vinnu er varðar upplýsingar og skýrslugjöf en segja má að upplýsinga- og skýrslugjöf sé einn af hornsteinum í Parísarsamningnum og grunnur þess að hægt sé að fylgjast með framgangi mála. Stóru línurnar í okkar málflutningi eru jafnframt atriði sem við viljum sjá skýrt dregin fram í fyrstu hnattrænu stöðutökunni. Leggja verður áherslu á að halda í það markmið að hitastig jarðar hækki ekki meira en 1,5°C en enn eru uppi raddir sem telja ekki þörf á að hamra á því þrátt fyrir að vísindaniðurstöður styðji þá nálgun.

Þá viðgengst víða um heim að niðurgreiða jarðefnaeldsneyti sem oft og tíðum hamla framgangi þess að byggð sé upp endurnýjanleg orka þar sem það er jafnvel auðvelt. Við leggjum áherslu á að slíkum niðurgreiðslum verði hætt. Það hefur ekki bara gera með baráttuna gegn loftslagsbreytingum heldur hefur það líka áhrif á ýmis sjálfbærnimarkmið, t.d. þegar kemur að fiskveiðum.

Jafnframt þarf að leggja áherslu á útfösun jarðefnaeldsneytis. Hér er lykilatriði að senda þau skilaboð að efla enn frekari innleiðingu tækni til endurnýjanlegrar orkuframleiðslu sem við búum nú þegar að. Í þessu samhengi er mikilvægt fyrir okkur að halda á lofti jarðhitanum sem er slík lausn og öðrum tæknilegum lausnum sem við og aðrir búa að.

Málefni hafsins er okkur einnig ofarlega í huga sem og málefni freðhvolfsins en Ísland er þar í forystu ásamt Chile fyrir sérstöku átaki sem hleypt af stokkunum á COP27 í fyrra. Í undirbúningi er sérstakur viðburður með aðkomu forsætisráðherra, utanríkisráðherra Chile og aðalritara Sameinuðu þjóðanna til að vekja athygli á mikilvægi freðhvolfsins. Bráðnun íss er ekki bara mikilvægt málefni heldur atriði sem hjálpar okkur að skilja hvernig áhrif loftslagsbreytinga bera með sér alls kyns keðjuverkandi afleiðingar. Bráðnun íss nálægt pólunum hækkar sjávarborð um allan heim og á sama hátt geta samfélagsleg áhrif vegna loftslagsbreytinga haft áhrif á Ísland, t.d. þegar kemur að birgðakeðjum, fólksflutningum og matvælaframleiðslu. Því er mikilvægt að við höfum þessa stóru mynd í huga, þessa kerfislægu áhættu sem við kynntumst svo vel á tímum heimsfaraldurs og ekki síst til að undirstrika að við verðum að standa saman frammi fyrir þessum áskorunum á öldinni. Í öllum okkar málflutningi verði svo lögð rík áhersla á réttlát umskipti, að mannréttindi verði virt og jafnréttismál verði í hávegum höfð í öllum aðgerðum.

Nýverið fundaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra með dr. Andrew Light, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, sem heimsótti Ísland í tengslum við þing Hringborðs norðurslóða. Ráðherrarnir ræddu einkum hvernig mætti dýpka samvinnu landanna á sviði orku- og loftslagsmála og möguleika þess að formgera samstarf landanna í þessum málaflokki. Mikil gróska er nú í hreinum orkuskiptum í Bandaríkjunum í kjölfar nýlegrar lagasetningar og stóraukinna framlaga bandarískra stjórnvalda til þess verkefnis og líklegt er að tækifæri felist fyrir Ísland í auknu samstarfi. Reyndar er það ekki bara líklegt, það er algerlega öruggt. Sem fyrsta skref í samstarfi landanna á þessu sviði hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákveðið að Ísland taki þátt í Carbon Management Challenge, CMC. Um er að ræða alþjóðlegt átaksverkefni, leitt af Bandaríkjunum, og miðar að því að hraða upptöku tækni sem byggir á föngun, förgun og hagnýtingu kolefnis. Markmiðið CMC er að ýta undir og skala upp með stórfelldum hætti þetta svokallaða CCS/CCUS á heimsvísu og draga þannig úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti þannig að hægt verði að ná markmiðum Parísarsamningsins um að halda hlýnun innan við 1,5°C.

Í dag er CCS/CCUS á heimsvísu einungis í kringum 0,05 gígatonn, þ.e. 50 milljónir tonna, sem svarar rúmlega tífaldri losun Íslands. CMC-átakið miðar að því að auka þetta magn upp í 1 gígatonn, sem er gríðarlegt magn sem gæti mögulega haft afgerandi áhrif í baráttunni við loftslagsbreytingar. Bandarísk stjórnvöld telja mikilvægt að Ísland taki þátt í CMC þar sem Ísland sé leiðandi í loftslagsmálum og hreinum orkuskiptum og íslensk fyrirtæki í fararbroddi í þróun loftslagslausna á sviði CCUS, þar með talið brautryðjendaverkefnið Carbfix um föngun og geymslu kolefnis, en fleira mætti nefna.

Auk Bandaríkjanna eru önnur stofnlönd CMC; Brasilía, Kanada, Bretland, auk þess sem Ástralía, Danmörk, Egyptaland, Evrópusambandið, Japan, Noregur, Svíþjóð, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa staðfest þátttöku. Markmið CMC eru hvorki skuldbindandi né fela þau í sér beinan kostnað heldur felast þau fyrst og fremst í því að Ísland vinni að framgangi CCS/CCUS-tækni og lausna á heimsvísu og heima fyrir í samstarfi við atvinnulífið. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hyggst staðfesta þátttöku Íslands í tengslum við aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í COP28 í Dúbaí í byrjun desember næstkomandi.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að hafa áhrif þá þurfum við alltaf að byrja heima hjá okkur og það var mjög ánægjulegt að ég er að koma núna frá undirskrift í Elliðaárdal með Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Ölfusi, og Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Orkuveitunnar og Heru Grímsdóttur, sem stýrir rannsóknum og nýsköpun í því fyrirtæki þar sem þetta öfluga sveitarfélag og þetta stóra orkufyrirtæki á íslenska mælikvarða eru búnir að ákveða það að snúa bökum saman til að vinna að því að nýta grænu orkuna. Það eru góðar fréttir því að við þurfum að hafa okkur öll við ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem við höfum einsett okkur að ná.