154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:10]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og við höfum aðeins skoðað þetta og þeir sem standa á bak við þessa hugmynd eru átta smáeyjaríki auk fjölda félagasamtaka og forsvarsmenn hugmyndarinnar gera ekki ráð fyrir að öll eða flest ríki verði aðilar heldur verði þetta samtök ríkja sem vilja ganga fremst í því að ganga beint á hólm við meginorsök hlýnunar, þ.e. jarðefnaeldsneytið, og þetta myndi væntanlega þýða stórauknar aðgerðir innan lands og stóraukna aðstoð við þróunarríki og það er spurning hvort það séu ekki næg tækifæri til þess innan þess ramma sem núverandi kerfi býður upp á. Við gætum einfaldlega stóraukið framlög okkar í græna loftslagssjóðinn eða eflt verulega þátt okkar í IRENA sem er alþjóðastofnun um endurnýjanlega orku. Við værum fyrst þróaðra ríkja til að fara þessa leið og þó svo það liggi alveg fyrir hver okkar afstaða er þá skoðum við þessa hluti í samhengi við aðra því að okkur berst fjöldi erinda að taka þátt í og skrifa undir allra handa yfirlýsingar og samninga. En ég held að það sé lykilatriði að við höldum aðallega þessum skýru skilaboðum sem við erum með. Það verður af nógu að taka á þessum vettvangi. Við höfum sögu að segja sem fyrst og fremst snýr að grænni orku þrátt fyrir að við höfum á undanförnum einum eða tveimur áratugum ekki sinnt því að framleiða græna orku, það er komið að skuldadögum í því hjá okkur. En hins vegar skildu þeir sem á undan komu landið eftir í mjög góðum málum þegar kemur að grænni orkuöflun. Við munum leggja áherslu á þá þætti (Forseti hringir.) sem ég nefndi hér áðan og get farið betur yfir, en þetta er bara skoðað í því samhengi.