154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er fullmeðvituð um að það berst fjöldi erinda í aðdraganda COP28 og auðvitað skiptir mjög miklu máli að styðja ekki hvað sem er heldur velja vel. Það kann að vera að við höfum og eiginlega alveg öruggt að við höfum auðvitað aukin tækifæri innan þróunarsamvinnu til að styðja við góð verkefni í loftslagsmálum. En hér er um að ræða kröfu sem er að einhverju leyti krafa suðurs til norðurs vegna þess að þetta er krafan um að ríku löndin sem notið hafa jarðefnaeldsneytisins hætti að vinna það og dragi úr framleiðslunni. Við vitum svo sem að það er það sem við þurfum að gera. Við verðum að hætta að nota jarðefnaeldsneyti alls staðar ef við ætlum að ná þeim árangri sem stefnt er að. Þannig að pólitískt held ég að það sé klókt og vel skoðandi að taka undir þessa kröfu af því að við eigum líka allt okkar undir því að við hættum að nota jarðefnaeldsneyti.