154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held, bara svo það sé sagt, að þessi barátta verður ekki unnin með yfirlýsingum heldur með gerðum og eins og hv. þingmaður vísaði til, hér er fjöldi allra handa yfirlýsinga sem okkur berst og býðst að taka þátt í og það er litið til okkar. Ég vitnaði hér í fund með dr. Andrew Light, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, þeir vilja fá okkur í samstarf af því að við stöndum framarlega og hugsanlega fremst þegar kemur að jarðvarmanum sem er tæki til lausna því þetta snýst ekki bara um að hætta að nota jarðefnaeldsneyti, þetta snýst um að setja græna orku í staðinn og það snýst ekki bara um að það, þó að það sé mikilvægt, að láta að okkur kveða á alþjóðavettvangi á fundum heldur þurfum við líka, virðulegi forseti, að byrja heima hjá okkur og það er mikilvægt fyrir okkur að við nýtum það sem okkur er gefið til þess að koma jarðefnaeldsneytinu út. Þetta snýst um að taka út jarðefnaeldsneyti og setja græna orku í staðinn.