154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:18]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hún á í rauninni ekki við COP heldur meira það sem snýr að samstarfi okkar með Evrópuríkjunum. Ég vona að fulltrúi flokks hv. þingmanns hafi verið með á sameiginlegan fundi hjá atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd í morgun þar sem við vorum að kynna skýrslu um upprunavottorð eins og ég hafði boðað og ef ekki þá er alveg sjálfsagt að kynna það fyrir hv. þingflokki. Til að gera langa sögu stutta þá eru íslensku orkufyrirtækin að fá gríðarlegar tekjur af þessu, 6,5 milljarða kr. á þessu ári, og það er eitthvað sem kemur á hverju ári og tekjurnar geta verið mun meiri. En það er mjög mikilvægt að ræða þau mál og það verður einmitt kynnt á blaðamannafundi á fimmtudaginn. Varðandi flugsamgöngurnar þá kynnti hæstv. utanríkisráðherra fyrir nokkrum mánuðum síðan útfærsluna sem snýr að Íslandi og í það minnsta eftir því sem ég best veit þá eru flugrekendur á Íslandi sáttir við þá niðurstöðu. Varðandi landnotkunina þá á það kannski ekki við um COP heldur önnur mál en ég hef sömuleiðis upplýst að við eins og aðrar þjóðir erum að skoða það sérstaklega og það er verið að rannsaka hvernig er best að haga þeim málum miðað við þær vísindalegu upplýsingar sem við höfum og það er sérstakt mál sem væri gott að ræða hér en á kannski ekki alveg við þegar kemur að COP. Varðandi markmið Íslands þá hef ég vakið athygli á því, þó svo að við séum líka með hin markmiðin sem við erum alltaf að stefna að, að við ættum að hafa sérstaklega augun á markmiðum sem við ætlum að ná fyrir 2030 (Forseti hringir.) því það er nokkuð sem er mikilvægt fyrir okkur að ná og við getum rætt betur.