154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:21]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fari beint í það sem hv. þingmaður ræddi hér síðast þá er þetta fullkominn misskilningur hjá hv. þingmanni, grundvallarmisskilningur. Jú, jú, þetta er grundvallarmisskilningur. Ef íslensk orkufyrirtæki selja upprunavottorð á valfrjálsum markaði þá hefur það ekkert áhrif á bókhald Íslands. Engin. (EÁ: Við erum að hjálpa þeim að menga.) Nei, og hugmyndin á bak við það kerfi … (Gripið fram í.) Ef hv. þingmaður (Gripið fram í.) myndi kynna sér …

Virðulegur forseti. Er þetta eitthvað sem á að vera hér áfram, að það sé gripið fram í fyrir mér meðan ég er að reyna að útskýra þetta fyrir hv. þingmanni hvað hann er að misskilja? Þetta er valfrjálst kerfi og íslensk fyrirtæki selja upprunavottorð. Af hverju geta þau selt upprunavottorð? Það er af því að þau eru að framleiða græna orku. Hugmyndin er að þau fái auknar tekjur til þess að geta búið til græna orku. Þetta hefur ekkert að gera með losunarbókhaldið okkar, ekki neitt. (Gripið fram í.) Ekki neitt.