154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni, með leyfi forseta:

„[V]ið þurfum að hafa okkur öll við ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem við höfum einsett okkur að ná.“

Þau markmið eru, aftur með leyfi forseta, í ríkisstjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar:

„Við munum setja okkur sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005.“

Staðan er sú að við vorum áður í samstarfi við Evrópulöndin og Noreg um að ná saman 40% samdrætti á losun. Hlutur Íslands í því samkomulagi var að ná 29% samdrætti. Við erum ekki að ná því markmiði. Síðan voru gerð ný markmið um 55% samdrátt á losun og okkar hlutur endar líklega einhvers staðar í kringum 40%. En til viðbótar við það er ríkisstjórnin með áætlun um sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun. Við skulum átta okkur á þessu samhengi. Samt er ekkert, ekki neitt komið fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar um það hvernig á að ná þessu markmiði. Núgildandi fjármálaáætlun nær til ársins 2028. Næsta verður til 2029 og síðasta fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar mun ná til 2030. Það er bara mjög augljóst að maður spyrji: Af hverju er ekki búið að sýna okkur hvernig á að ná þessu markmiði um 55% samdrátt í losun ef, eins og ráðherra segir líka, við eigum ekki bara að leysa vandann með yfirlýsingum?