154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:29]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi hérna áðan er grunnurinn að ákvörðun, og þar af leiðandi fjármálaáætlun, aðgerðaáætlun. Ef við ætlum að nýta fjármuni skynsamlega þá verðum við að vita til hvers við eigum að nýta þá. Stóri vandi okkar núna er sá að það vantar græna orku. Við erum að sjá núna fréttir af fiskimjölsverksmiðju á Höfn sem er ekki með græna orku. Hvað þýðir það? Fiskimjölsverksmiðjan á Höfn þarf að nota olíu, jarðefnaeldsneyti en ekki grænt rafmagn. Hv. þingmenn verða að átta sig á þessari staðreynd því þetta er staðreyndin (Gripið fram í.).

Virðulegi forseti. Voðalega er erfitt fyrir hv. þingmenn að grípa ekki fram í.

Virðulegur forseti. Aðgerðaáætlunin er ekki unnin bak við skrifborð í ráðuneytinu. Hún er unnin með þeim aðilum sem eiga að koma þessu í framkvæmd og þar er atvinnulífið náttúrlega stærsti þátturinn. Hið sama á við um sveitarfélögin. Ef menn ætla að ná árangri þá verða menn að vera með góðar áætlanir, (Forseti hringir.) byggðar á bestu upplýsingum og með mælanleg markmið og það er það sem þessi ríkisstjórn hefur verið vinna að. (Forseti hringir.) Ég hefði alveg viljað að það hefði verið tilbúið en það var það bara ekki þegar ég kom að þessu verkefni.