154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Umhverfis- og loftslagskrísan hefur áratugum saman verið mikilvægasta en þó einhvern veginn, því miður, minnst aðkallandi að öllum alþjóðlegum krísum, jafnvel þó að árið 2023 verði að öllum líkindum langheitasta ár sögunnar með fjöldann allan af hörmulegum flóðum, skógareldum og hitabylgjum um allan heim. Því miður þá stendur í baráttan við loftslagsbreytingar frammi fyrir miklum mótvindi og dapurlegum framtíðarhorfum. Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna er okkar helsti vettvangur til að takast á við þessa alþjóðlegu krísu og skiptir gríðarlega miklu máli að rík þjóð eins og Ísland sé metnaðarfull í sínum markmiðum og leiðandi þegar kemur að áherslum og að við stöndum raunverulega við áform og áætlanir. Það skiptir máli að standa við gefin loforð svo það sé mark á okkur takandi.

Markmið ríkisstjórnarinnar um 55% samdrátt fram til ársins 2030 er ekkert sérstaklega metnaðarfullt en það sem verra er er að ríkisstjórnin er ekki nálægt því að ná því markmiði. Samkvæmt útreikningum Umhverfisstofnunar var samdráttur Íslands frá árinu 2005 til ársins 2010 um 10%. Þegar horft er til framtíðar og tekið mið af þeim aðgerðum sem eru þegar í gangi eða hafa verið staðfestar stefnir í að losunin dragist saman um 24% fram til ársins 2030, sem er vel innan við helming af yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar. Þegar við horfum til verkefna sem eru helst til þess fallin að aðstoða við að ná markmiðum um samdrátt í losun, eins og t.d. öflugar og skilvirkar almenningssamgöngur, þá er lítill sem enginn áhugi á að fjármagna verkefnin af neinni alvöru. Á þennan hátt grefur ríkisstjórnin undan sínum eigin trúverðugleika og möguleikum.

Forseti. Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna er vettvangur þar sem þjóðir heims sammælast um markmið í loftslagsmálum til að þrýsta stöðugt á metnaðarfyllri aðgerðir þvert á landamæri. Ísland hefur langa hefð fyrir þátttöku og stuðningi við alþjóðlegt samstarf um verndun náttúrunnar og COP28 er vettvangur til að halda því áfram og ganga enn lengra. Það er því ljóst að Ísland getur ekki bara treyst á að elta önnur lönd, við þurfum sjálf að setja markið hátt og þannig gera Ísland að leiðtoga og fyrirmynd þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. Við gerum það með því að sýna gott fordæmi og þrýsta sérstaklega á að loftslagsréttlæti sé haft að leiðarljósi, það skiptir gríðarlega miklu máli, í öllum ákvörðunum á þinginu og að hvetja til aukinnar þátttöku ungs fólks í ákvarðanatöku sem tengist loftslagsmálum. Þetta er lykilatriði.

Við sýnum gott fordæmi með því að grípa til róttækra aðgerða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ein aðgerð væri t.d. að banna olíuleit í efnahagslögsögu Íslands en nú eru tvö ár frá því að ríkisstjórnin lýsti yfir slíku í stjórnarsáttmálanum sínum. Ríkisstjórnin virðist þó eiga erfitt með að sýna þann vilja með aðgerðum. Í fyrstu lagði fyrrum umhverfisráðherra fram frumvarp um bann við olíuleit á 152. löggjafarþingi sem ekki náðist að afgreiða þá og ekkert hefur bólað á frumvarpinu síðan. Auk þess þegar Píratar lögðu til bann við olíuleit á síðasta kjörtímabili var því máli bara vísað frá, meiri hlutinn vísað því frá.

Forseti. Forgangsröðunin er mjög skýr og hún er ekki í þágu loftslagsins. Það hefur sannað sig óteljandi sinnum að það er ekki nóg að tala bara um hlutina, það verður að fylgja þeim eftir með aðgerðum. Skýrustu aðgerðirnar sem stjórnvöld og löggjafinn geta gripið til er löggjöf. Það að setja lög sem gerðu það skýrt að Ísland myndi ekki leita að olíu í framtíðinni eða leyfa öðrum löndum að gera það, væri ekki aðeins mikilvægt fyrir hag þjóðarinnar heldur væri það einnig táknrænt út á við. Ísland gæti verið leiðandi í baráttunni og útbreiðslu jarðefnaeldsneytis á alþjóðavettvangi. Það dugir nefnilega skammt að stæra sig af grænum orkuskiptum ef það er ekkert í regluverkinu sem tryggir að megavöttin leysi ekki af hólmi olíulítrana í stóra samhenginu. Það er ekki nóg að allir á Íslandi keyri rafbíla, við þurfum líka að gera allt sem í okkar valdi stendur til að önnur ríki hætti notkun jarðefnaeldsneytis ef markmiðið er að snúa við hnattrænni hlýnun og súrnun sjávar.

Nú síðast í október kom sviðsmyndagreining frá Alþjóðaorkumálastofnuninni sem sýndi að eina leiðin til að halda mannkyni innan 1,5°C marka Parísarsáttmálans væri ef það yrðu engin ný jarðefnavinnsluverkefni sett af stað. Önnur leið væri að taka nýrri áskorun fjögurra íslenskra náttúruverndarsamtaka um að Ísland samþykki alþjóðlegan sáttmála um bann við útbreiðslu jarðefnaeldsneytis. Nú þegar hafa átta þróunarríki, þúsundir félagasamtaka auk fjölda borga og fylkja samþykkt sáttmálann. Enn hefur ekkert ríki í Evrópu samþykkt sáttmálann en samtökin telja þetta vera kjörið tækifæri fyrir Ísland í ljósi þess að orkuskipti eru nú þegar þungamiðjan í loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar og með því að skrifa undir sáttmálann myndi Ísland marka sér alvöru pólitíska stöðu á alþjóðavettvangi. Því hlýtur að vera kjörið tækifæri í tilefni COP28 að bæði lögfesta bann við olíuleit og samþykkja þennan sáttmála og sýna þar með í verki með fleiri leiðum en rafbílainnflutningi að Ísland er í fararbroddi í grænum umskiptum.

Þetta eru aðgerðir sem hæstv. ráðherra getur gripið til núna strax, en ég þreytist ekki að minna á hve mikilvægt er að við lítum til framtíðar í öllum aðgerðum. Einstakar aðgerðir ná einungis ákveðið langt og sérfræðingar hafa ítrekað bent á að ef við ætlum að afstýra þeim hörmungum sem bíða okkar þá þurfi stórar kerfisbreytingar, breytingar á okkar stærstu kerfum og þar fremst í flokki er hagkerfið okkar. Við þurfum að uppfæra hagkerfi okkar og hætta að horfa á hagvöxt sem eina mælitækið á gæði samfélagsins. Það eru einmitt hvatarnir í hagkerfinu okkar sem valda því að t.d. auðlindaríkar þjóðir misnota loftslagsþingið til að sækja viðskiptatækifæri. Skýrt dæmi er hvernig Sameinuðu arabísku furstadæmin ætla að nýta sér stöðu sína sem gestgjafar loftslagsráðstefnunnar til að semja við þjóðir um kaup á jarðefnaeldsneyti, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum. Þegar gróðasjónarmið ráða för verða aðrir hagsmunir undir eins og hagsmunir umhverfisins og aðgengi framtíðarkynslóða að þeim auðlindum sem þær þurfa til að lifa. Ef ríkisstjórninni er alvara með að takast raunverulega á við loftslagsvána þá skuldar hún þjóðinni það að setja velsældarhagkerfið og velsældarsamfélagið á dagskrá, bæði hér heima og á jafn mikilvægum vettvangi og loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna.