154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:53]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Staðan er grafalvarleg og ólíkt því sem við höfum verið að ræða undanfarin ár þá erum við ekki að horfa til framtíðar um afleiðingar loftslagsbreytinga, þær eru löngu komnar fram um allan heim og ekki síst hér á Íslandi. Hamfaraflóð, aurskriður, hækkun sjávar, bráðnun jökla, þetta er eitthvað sem við höfum horft upp á undanfarin ár með tilheyrandi afleiðingum. Má þar nefna aurskriður á Seyðisfirði og fleira. Íslenska ríkið hefur gengist undir ákveðnar skuldbindingar með aðild sinni að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Á COP28 verður farið yfir þann árangur sem ríkin hafa náð í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar verður tekist á við það markmið að leita leiða til að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C miðað við fyrir iðnbyltingu. Þetta markmið var samþykkt í Parísarsamkomulaginu um viðnám við loftslagsbreytingum.

Virðulegi forseti. Mér hlotnast sá heiður að sækja loftslagsráðstefnuna, COP28, ásamt öðrum þingmönnum en hún fer fram í Dúbaí á næstu dögum og vikum. Fyrir Íslands hönd fer, auk þingmanna, fjöldi fólks frá bæði stjórnvöldum og atvinnulífinu. Green by Iceland er það vörumerki sem notað er erlendis en við þekkjum betur sem Grænvang, sem hefur það hlutverk að efla samstarfið milli þessara aðila með tilliti til markmiðanna. Það er þó mikilvægt að við missum aldrei sjónar á hinu raunverulega markmiði og með aðkomu atvinnulífsins fái ekki arðsemiskrafan að verða alvarleika loftslagsbreytinganna yfirsterkari. En því miður höfum við séð allt of mörg dæmi um það og það köllum við grænþvott í daglegu tali.

Það ríkir bjartsýni fyrir COP28 gagnvart því að nú verði tímamót í anda Parísarsáttmálans og vona ég svo sannarlega að sú verði niðurstaðan. Það hafa verið tekin mörg góð skref og má þar t.d. nefna samkomulag á milli Kína og Bandaríkjanna. Það sem hefur komið fram, og ekki síst frá sjálfum forseta þingsins, er að nú er tíminn liðinn þar sem við getum verið að marka stefnur og leggja til tillögur, tími aðgerða er kominn. Og það er það sem ég bind miklar vonir við að komi út úr þessum fundi, að við sjáum raunverulegan aðgerðapakka sem hin stóru ríki, sem bera að sjálfsögðu mesta ábyrgð á stöðunni, taki sig saman og bregðist við. Þessi umræða hér í dag hefur verið góð og hér hefur komið fram að við erum langflest sammála um hver staðan er og að við þurfum að hlaupa dálítið hraðar.

Ég vil nýta tækifærið hér og þakka fyrir það traust að fá að fara þarna út. Þessi mál hafa verið mér mjög hugleikin undanfarin ár og ég sérhæfði mig í mínu meistaranámi í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Það eru liðin svo mörg ár síðan og ég var alger eintrjáningur þegar ég sat og skrifaði mína meistararitgerð, það var enginn að tala um loftslagsmál á þeim tíma. En það sem ég gleðst hvað mest yfir í dag er að loftslagsumræðan er nú samofin allri samfélagsumræðu og ég heyri það þvert á flokka að við skiljum hér öll alvarleika stöðunnar. Ég er bjartsýn og ég held að við séum að gera mjög margt gott í okkar málum. Auðvitað viljum við gera betur, við viljum geta hlaupið hraðar, við höfum ólíkar áherslur á forgangsröðun og um það tökumst við á í pólitíkinni. En góðu fréttirnar eru þær að við erum meðvituð um stöðuna og erum öll sammála um að við þurfum að byrja að framkvæma hraðar og taka ábyrgð.