154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Umræðan hér í dag skiptir máli, hún skiptir máli um það hver skilaboð Íslands verða á COP28 og hvert framlag Íslands verður. Mig langaði í því samhengi að nefna hér í umræðunni nýlegt svar hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við skriflegri fyrirspurn minni þar sem ég reyndi að fara nánar ofan í markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Ég spurði spurninga um það hvaða losun félli þar undir og hver hún væri í kílótonnum. Í svari hæstv. ráðherra, sem er ágætt, er rakið að markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 sé sett fram í samræmi við stefnumið Parísarsamningsins frá 2015 um að takmarka hækkun meðalhitastigs andrúmslofts jarðar við 1,5°C og að hugtakið kolefnishlutleysi sé notað til að lýsa ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis af mannavöldum þannig að nettólosun verði engin eða 0.

Í svarinu er jafnframt rakið að til að ná markmiði Parísarssamningsins þurfi þess vegna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eins hratt og nokkur kostur er með minni notkun jarðefnaeldsneytis í orkuframleiðslu og samgöngum og á sama tíma að auka kolefnisbindingu. En svo kemur eftirfarandi viðbót, með leyfi forseta:

„Skilgreining á því hvað falli undir markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi liggur ekki fyrir og því ekki hægt að segja hver losun í tonnum koldíoxíðsígilda er.“

Þetta er auðvitað mikill kjarnapunktur í svari hæstv. ráðherra. Til þess að markmið geti náðst fram þarf að liggja fyrir hver markmiðin eru og svo er einfaldlega ekki hér. Hvað fellur undir markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi liggur einfaldlega ekki fyrir og það er ekki hægt að segja til um það hver staðan er um losun. Ég spurði hæstv. ráðherra jafnframt að því hvort hann teldi ástæðu til að auka gagnsæi með því að skilgreina nákvæmlega hvaða losunarflokkar liggi til grundvallar markmiðinu í lögum um loftslagsmál í ljósi þess að mismunandi ríki skilgreina jú fyrrgreind markmið á mismunandi hátt með tilliti til umfangs. [Kliður í þingsal.] — Forseti.

(Forseti (OH): Það er einn fundur í þessum sal.)

[Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (OH): Eyjólfur. Það er einn fundur í þessum sal.)

„Stefnt er að því að skilgreina og skýra markmið um kolefnishlutleysi og þar af leiðandi hvaða losun skuli falla undir markmið um kolefnishlutleysi. Í stefnumörkun í loftslagsmálum er lögð mest áhersla á að draga úr losun og auka bindingu óháð losunarflokkum.“

Forseti. Þetta var aðeins um markmiðin, um gagnsæi og ég vildi draga þetta sérstaklega fram af því að þetta er mikill kjarnapunktur. En það liggur ekki fyrir af hálfu stjórnvalda skilgreining um þessi markmið.

Þá aðeins um stóru myndina. Ég sakna þess að ríkisstjórnin tali um heildarsamhengið og ég sakna þess að ríkisstjórnin tali einni röddu. Fyrirheit um orkuskipti eru bara falleg orð ef ekki fylgir hvernig á að tryggja framboð og afhendingu á raforku. Það þarf nauðsynlega að styrkja flutningskerfi og ég vil aftur nefna að það er mikilvægt að horfa á stóru myndina í því samhengi en ekki að móta stefnu eftir punktstöðu í kerfinu hverju sinni. Fyrirtæki á landsbyggðinni hafa ekki getað gengið að nægilega áreiðanlegri orku og hafa þurft að reiða sig á olíu og heilu landsvæðin hafa ekki haft tryggt aðgengi að rafmagni sem svarar þörf heimila og fyrirtækja.

Hér myndi auðvitað aðgerðir hjálpa ef ríkisstjórnin gæti sameinast um sameiginlega hugmyndafræði og um pólitík, því að það er pólitíkin sem kemur málum á hreyfingu, en við sjáum svo vel hjá þessari ríkisstjórn að pólitíkina vantar einfaldlega. Þegar allt kemur til alls er það helsti veikleiki þessarar stjórnar sem birtist mjög skýrt í þessum málaflokki. Frammistaðan í orkumálum var t.d. rakin á nýlegum haustfundi Landsvirkjunar. Þar kom fram að þröng staða blasir við heimilum næstu árin þar sem þau séu afgangsstærð í baráttunni um raforku. Leyfisveitingaferli nýrra virkjana sé komið út í skurð og háleit markmið Íslands í orkuskiptum virðist að engu orðin.

Það bíður næstu ríkisstjórnar að gera það að forgangsmáli að hraða leyfisveitingum og taka ferli rammaáætlunar til endurskoðunar og gæta þess að næg orka sé í nýtingarflokki til að knýja orkuskipti og mæta orkueftirspurn framtíðarinnar. Með skýrri hugmyndafræði og fjármögnuðum aðgerðum er sannarlega hægt að ná raunverulegum árangri á þessu sviði og tækifærin til þess blasa við. En mér sýnist að allar stórar ákvarðanir í orkumálum bíði nýrrar ríkisstjórnar sem verður að standa sameinuð um pólitíska sýn og aðgerðir og hafa kjark til að fara í stórar ákvarðanir. En ég brýni hins vegar ráðherra og hef trú á því að hann muni tala skýrt á COP28 (Forseti hringir.) um alvarlega stöðu í loftslagsmálum og af metnaði um framlag Íslands. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, að það þarf að byrja heima.