154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[16:04]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér munnlega skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um markmið Íslands vegna COP28. Mig langar að byrjað á að ræða og taka upp það sem m.a. hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir kom inn á hér í sinni ræðu hér á undan, um mikilvægi öflugs flutningskerfis raforku hér á landi og ef markmið okkar í loftslagsmálum eiga að nást um að ná takmarkinu um kolefnishlutlaust Íslands eftir nokkur ár, jú, tíminn líður mjög hratt, þá verður þetta öfluga flutningskerfi raforku í lykilhlutverki með orkunýtni og hvernig allt kerfið á að fúnkera. Því er það lykilverkefni til að ná þessum markmiðum að hraða og ljúka við sem allra fyrst að endurbyggja flutningskerfi raforku landsins. Í því samhengi er ég að tala bæði fyrir uppbyggingu hins svokallaða byggðalínuhrings og svæðisbundna kerfisins í einstökum landshlutum. Síðan megum við ekki gleyma mikilvægi dreifikerfis í þessu samhengi sem hefur verið mikið unnið að frá 1995. Það gleymist oft hversu stór þessi mál eru og mikilvægt að þau gangi hratt og vel.

Nokkur orð hér um orkunýtni og flutningskerfið. Það leikur lykilhlutverk í að bæta nýtingu endurnýjanlegrar raforku sem er framleidd hér á landi í dag. Einnig er mikilvægt að nýta glatvarma betur en við gerum. Það er í rauninni þörf á þjóðarátaki í þessum málum.

Rafvæðing Íslands. Við gerum okkur háleit markmið um að rafvæða Ísland og nýta innlenda orkugjafa til að knýja áfram samfélagið okkar og eins og áður þá gegnir flutningskerfið algjöru lykilhlutverki og er kjarninn í að þessi rafvæðing gangi upp. Þess vegna þurfum við að gera miklu betur í því sem snýr að þessu. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að hraða sem mest því sem hægt er að gera varðandi uppbyggingu í þessum málum. Suðurnesjalína 2 er einmitt gott dæmi um mikilvægi þess að við hröðum þessum ferlum til að tryggja öryggismál þjóðarinnar.

Það hefur komið fram, og kom fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan, mikilvægi þess að við förum að styrkja hitaveitukerfin og leita að heitu vatni. Við höfum ekki gert mikið af því um langa hríð, 15–20 ár, og við eigum að gera miklu betur þar, bæði til að tryggja núverandi hitaveitu og -kerfi landsins og líka til að finna heitt vatn á köldum svæðum landsins. Hæstv. ráðherra hefur einmitt nýlega kynnt verkefni sem snúa að þeim málum.

Við höfum síðan betri tækifæri en flestar þjóðir til að standa okkur í grænni orkuframleiðslu, hvort sem er í vatnsafli, jarðvarma eða vindorku, með öflugu kerfi og eigum að nýta þessa samkeppnishæfni sem landið hefur upp á bjóða og þá fjárhagslegu stöðu sem bætir raunverulega alla lífsafkomu almennings í þessu landi.

Á kjörtímabilinu hefur ýmislegt verið gert. Rammaáætlun 3 var samþykkt í fyrravor. Í þinginu hefur verið samþykkt frumvarp um aflaukningu vegna virkjana í Þjórsá og á Tungnaársvæðinu. Einnig samþykktum við mál varðandi varmadælurnar hér í þingsal í fyrra, átak í jarðhitaleit og síðan Suðurnesjalínu 2, sem er að komast á skrið núna.

Ég vil rétt í lokin nefna að mér fannst svolítið frjálslega farið með hluti hérna hjá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni áðan varðandi hugmyndafræðina á bak við kerfið, sem sagt á bak við upprunaábyrgðir sem eru raunverulega bara fjárhagsleg tækifæri fyrir Ísland, íslensk fyrirtæki og íslenskt samfélag til að skapa tekjur, en ýta undir græna orkuframleiðslu í heiminum. (Forseti hringir.) Ég held að það sé full þörf á að við förum í að kynna okkur þetta mun betur og í samfélaginu og taka góða umræðu (Forseti hringir.) um þetta. En okkar skilaboð á COP28 eru fyrst og fremst: Meiri græna orkuframleiðslu á Íslandi. (Forseti hringir.) Þar getum við staðið okkur og við eigum að gera miklu betur en við (Forseti hringir.) höfum gert hér í þessum þingsal á undanförnum árum.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á að búið er að semja um ræðutíma og biður hv. þingmann að virða ræðutímann.)