154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[16:18]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við loftslagsmálin í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þar verður staðan metin og leiðin mörkuð áfram. Hér á Íslandi höfum við lögfest markmið um að ná kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2046 og sett fleiri vörður á leiðina. Við getum náð settum markmiðum en til þess þurfum við áfram að vinna markvisst. Vinnan gegn loftslagsbreytingum er samvinnuverkefni og það þarf að vinna á mörgum ólíkum sviðum samtímis. Ég vil leyfa mér að segja að þar beri hæst orkumál í víðu samhengi en líka umbætur í hringrásarhagkerfinu og landnýting, og lykillinn að umbótum er rannsóknir og nýsköpun á öllum þessum sviðum. Stjórnvöld þurfa að veita markvissa forystu, beita réttum hvötum og stuðla að vandaðri upplýsingagjöf. Atvinnulífið vinnur markvisst og viðfangsefnin þar eru ólík í mismunandi geirum en atvinnulífið er í lykilhlutverki við að finna nýjar og grænar lausnir með nýsköpun.

Einstaklingar hafa líka áhrif við allar ákvarðanir um daglega neyslu. Verkefnin eru ólík í orkumálunum en þau felast m.a. í öflun meiri endurnýjanlegrar orku, betri orkunýtingu — og hér hefur verið komið inn á hlutverk flutningskerfisins í því — en líka nýsköpun í orkugeiranum og áframhaldi orkuskipta til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Raforka nýtist t.d. ekki beint til orkuskipta á stærri farartækjum á lengri leiðum og þess vegna verður að tryggja aðgengi að rafeldsneyti. Framleiða þarf rafeldsneyti úr endurnýjanlegri orku, t.d. á formi vetnis eða ammoníaks, og getur slík framleiðsla á Íslandi verið bæði hagkvæm og orðið mikilvægt framlag í baráttu gegn loftslagsbreytingum í heiminum jafnframt því að vera forsenda orkuskipta í flutningum til og frá Íslandi. Við þurfum að ákveða hvernig við stöndum að framleiðslu rafeldsneytis og hvaða umgjörð við sköpum þeirri framleiðslu, t.d. varðandi kröfur til orkuöflunar, eignarhalds og ávinnings nærumhverfis.

Uppbygging alvöruhringrásarhagkerfis er líka forsenda árangurs. Þar er auðvitað fyrsta reglan að nýta allt hráefnið vel. Í matvælaframleiðslu þarf til að mynda að horfa á allan skrokkinn af sláturdýrinu eða allt grænmeti sem er framleitt innan lands og nýta það vel. Þar eru nýsköpunartækifæri. Það sem ekki nýtist þarf svo að fara inn í hringrásina. Við þurfum að nota allt lífrænt efni í áburð eða til orkuframleiðslu, málma og plast í endurvinnslu og þannig mætti áfram telja.

En þá að landnýtingunni. Öll ræktun bindur kolefni í gróðri auk þess sem ræktun gróðurlítils eða rofins lands dregur úr losun kolefnis út í andrúmsloftið. Frá því á níunda áratugnum — ég ætla að leyfa mér að fullyrða það — hefur binding kolefnis í gróðri aukist mikið hér á landi, bæði vegna markvissrar ræktunar, svo sem í nytjaskógrækt og landgræðslu, en líka vegna stöðugt minnkandi beitar. Nú kalla bændur og aðrir landeigendur hins vegar eftir skýrari leiðsögn stjórnvalda um áherslur í kolefnisbindingu og kolefnisbókhaldi landnýtingar. Það þarf að vera skýrt hvernig landeigendur geta staðið að kolefnisbindingu til að hún uppfylli alþjóðareglur, hvort sem vilji er til að selja kolefniseiningar á markaði eða nota þær til jöfnunar í eigin bókhaldi og um leið sem leiðsögn við að bæta kolefnishringrás í eigin rekstri. Ef rétt er á haldið gætu íbúar í dreifbýli nýtt meira land til kolefnisbindingar og um leið skotið viðbótarstoðum undir afkomumöguleikana jafnframt því að vera virkir þátttakendur í vinnunni gegn loftslagsbreytingum.

Virðulegi forseti. Vinnan að loftslagsmálum hefur samlegð með allri vinnu að sjálfbæru og öruggu samfélagi. Árangur í loftslagsmálum fer líka oftast saman við hagkvæmni í rekstri, hvort sem það er í heimilisbókhaldinu, í rekstri fyrirtækja eða í rekstri samfélags. Við höfum raunveruleg tækifæri til að ná árangri í loftslagsmálum í vinnunni gegn loftslagsbreytingum innan lands. Lykilatriðið er að horfa ekki þröngt á vinnuna, setja okkur markmið og aðgerðaáætlun á mörgum sviðum.