154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[17:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þetta mál. Þetta er frekar augljós redding miðað við aðstæður. Það væri mjög gott að fá samt í kjölfarið á þessu greinargóða útlistun á því hvernig landið liggur aðeins með húsnæðisaðstæður. Eins og hv. þm. Guðbrandur Einarsson benti á erum við einmitt í þeirri stöðu, út af því hvernig húsnæðismarkaðurinn var hérna á Íslandi áður en krísan fór í gang, að það er bara ekki mikið um pláss. Það er hluti af þeim vanda sem við erum búin að vera að reyna að hvetja til þess að sé undið ofan af, þ.e. þessi óuppfyllta íbúðaþörf sem veldur því að fólk þarf að leita í alls konar króka og kima eftir húsnæði, jafnvel áður en heilt bæjarfélag þarf að flakka eitthvað annað og finna enn þá fleiri króka og kima og alls konar svoleiðis. Að lágmarki getum við alla vega brugðist svona við. Ég held að þetta sé góð ráðstöfun, gott úrræði. Ég myndi kalla helst eftir því að við fylgjumst sérstaklega vel með því hvort það séu einhverjir sem standa út undan. Það er svona svipað eins og Covid-úrræðin voru, þau voru dálítið almenn, við vissum að það voru einhverjir sem féllu á milli, t.d. voru leigubílstjórar að falla á milli í Covid-úrræðunum o.s.frv. Það gæti vel verið að það séu einhverjir aðilar sem uppfylla ekki allar kröfur til að fá svona stuðning, að við grípum það þá bara sem fyrst til að gæta allrar sanngirni gagnvart öllum sem eru í þessum vanda í dag. Ég hvet stjórnvöld mikið til að fylgjast vel með því hvort þetta nái ekki örugglega til allra sem það ætti sanngirnislega séð að ná til.