154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[17:02]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég fagna þessu frumvarpi um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir Grindvíkinga þar sem Grindvíkingar standa frammi fyrir miklu verkefni og vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og hvort þau geti flutt aftur heim og þá hvenær. Mikilvægt er að samfélagið í heild sinni geri það sem það getur til að létta aðeins undir með Grindvíkingum þó að auðvitað sé það erfitt. Óvissan er mun stærri partur af lífi Grindvíkinga en annarra í dag og þessi óvissa og áhyggjur geta haft margvísleg áhrif á einstaklinga.

Þar sem við erum að tala um Grindavík og húsnæði fyrir þau þá langar mig bara aðeins að ræða líka um hvað þetta getur haft ótrúleg áhrif á heilsu fólks og hvað þessar áhyggjur geta haft mikil áhrif á einstaklinga. Þannig að þetta er bara dropi í hafið til að hjálpa þessum einstaklingum að styðja hvert annað og að við styðjum þau og að þau séu bara með það á hreinu að við erum að reyna að gera það sem við getum þó að við getum auðvitað ekki gert allt í svona aðstæðum, þar sem það er mikið áfall að fara úr sínum heimabæ og vera annars staðar og fyrir börnin að fara í aðra skóla og ýmislegt. Ég held að þeir sem upplifa þetta ekki geti ekki sett sig í þessi spor. Mér finnst bara frábært að sjá að við erum að taka utan um þessa einstaklinga eins vel og við getum og þetta frumvarp er partur af því.